Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   fös 07. júní 2024 20:37
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Wembley
Einkunnir Íslands: Ótrúlegt kvöld á Wembley
Icelandair
Hákon Arnar, töframaður.
Hákon Arnar, töframaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Berg, geggjaður.
Jóhann Berg, geggjaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hákon Rafn grípur inn í.
Hákon Rafn grípur inn í.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska landsliðið vann einn sinn stærsta sigur í sögunni í kvöld þegar liðið vann 1-0 sigur á Englandi á Wembley í vináttulandsleik. Um var að ræða síðasta leik Englands fyrir EM en Íslendingum tókst að skemma kveðjupartý þeirra áður en þeir fara til Þýskalands á Evrópumótið.

Hér fyrir neðan má sjá einkunnagjöf Fótbolta.net úr leiknum.

Hákon Rafn Valdimarsson - 8
Var hreint út sagt stórkostlegur. Greip frábærlega inn í þegar hann þurfti. Svo mikil og sterk nærvera í teignum. Þurfti ekki að verja mikið en lokaði vel á Palmer í seinni hálfleiknum.

Bjarki Steinn Bjarkason - 8
Kom óvænt inn í byrjunarliðið og spilaði sinn langstærsta leik. Gerði það með stakri prýði. Var flottur varnarlega og var líka góður á boltanum.

Sverrir Ingi Ingason - 9
Þvílíkur leikur hjá Sverri! Einn hans besti landsleikur. Skallaði allt frá og henti sér fyrir allt. Algjör stríðsmaður.

Daníel Leó Grétarsson - 8
Sömuleiðis þá var Daníel Leó Grétarsson að spila einn sinn besta landsleik. Líklega þann besta. Var frábær við hlið Sverris

Kolbeinn Birgir Finnsson - 8
Var mjög flottur sem hluti af sterkri vörn Íslands í þessum leik. Gerði sitt bara gríðarlega vel.

Mikael Neville Anderson - 7
Var afskaplega duglegur á hægri kantinum. Lagði líf og sál í verkefnið.

Arnór Ingvi Traustason - 8
Búinn að vera okkar besti maður síðan að Age Hareide tók við liðinu. Hann heldur bara áfram að skila sínu eins og algjör fagmaður.

Jóhann Berg Guðmundsson - 9
Leiðtoginn á miðsvæðinu. Er svo rólegur, hefur gert þetta allt áður. Aðrir leikmenn fylgja hans fordæmi.

Jón Dagur Þorsteinsson - 8
Skoraði frábært mark og var virkilega hættulegur. Er frábær í því að pirra andstæðinginn og hann gerði það að venju vel í kvöld.

Andri Lucas Guðjohnsen - 7
Vann vel fyrir liðið í fremstu víglínu og var sterkur í skallaboltunum. Skilaði sínu vel fyrir liðið.

Hákon Arnar Haraldsson - 9
Gæinn er ekkert eðlilega góður í fótbolta. Maður þreytist ekki á að segja það. Var eins og hann væri að leika sér á Langasandi, svo rólegur var hann. Gerði ótrúlega vel í marki Íslands.

Varamenn:
Stefán Teitur Þórðarson - 7
Aðrir spiluðu ekki nóg til að fá einkunn.
Athugasemdir
banner
banner
banner