„Ég held að öll lið sem fari inn í undankeppnina séu með lokamót HM sem markmið. Við erum með auka möguleika í gegnum Þjóðadeildina og hún hefur hjálpað okkur áður. Þetta er byrjunin á undankeppninni. Við erum að mæta sterkum liðum og Tyrkland er eitt þeirra. Við sjáum hvernig þetta fer," sagði Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands, á fréttamannafundi í dag.
Á morgun spilar Ísland sinn annan leik í Þjóðadeildinni er þeir heimsækja Tyrki. Fyrsti leikurinn var sigurleikur gegn Svartfjallalandi síðasta föstudagskvöld.
Á morgun spilar Ísland sinn annan leik í Þjóðadeildinni er þeir heimsækja Tyrki. Fyrsti leikurinn var sigurleikur gegn Svartfjallalandi síðasta föstudagskvöld.
„Tyrkland er með marga góða leikmenn sem eru að spila á hæsta stigi í Evrópu," sagði Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsfyrirliði á fundinum.
„Þið eruð með leikmenn sem eru að spila fyrir Real Madrid og Inter. Það eru frábærir leikmenn því annars væru þeir ekki að spila fyrir þessi félög. Við þurfum að passa okkur á öllum leikmönnum Tyrklands því þeir eru allir að spila á háu stigi. Tyrkneska deildin er líka mjög góð. Það eru stór nöfn þarna en þú þarft að hugsa um allt liðið."
Stærstu nöfnin í liði Tyrklands eru Hakan Calhanoglu, leikmaður Inter, og Arda Guler, leikmaður Real Madrid, eins og Jóhann Berg bendir á.
Ég vona það!
Eins og bent var á hér á síðunni fyrr í dag, þá hefur Ísland verið með gott tak á Tyrklandi í landsliðsfótbolta og verið eins konar ólukkulið fyrir þá. Hareide var spurður að því af tyrkneskum fjölmiðlamanni hvort fyrri úrslit myndu hafa einhver sálræn áhrif fyrir leikinn á morgun.
„Ég vona það!" sagði Norðmaðurinn þá og brosti.
„Við berum auðvitað virðingu fyrir Tyrklandi. Þetta er öflug fótboltaþjóð sem er með gott lið. Það er ástríðufullt fólk í stúkunni og um það snýst fótbolti. Ég veit að fólkið í Tyrklandi elskar fótbolta og styður við bakið á landsliðinu. Það er eins á Íslandi en það er aðeins fleira fólk hérna."
Tyrkland gerði jafntefli við Wales í fyrsta leik sínum í Þjóðadeildinni og endaði sá leikur með markalausu jafntefli. Hareide hefur rýnt vel í þann leik ásamt teymi sínu. „Mér fannst Tyrkir óheppnir með rauða spjaldið, það var ekki rautt spjald. Tyrkir sýndu góðan karakter og spiluðu vel með tíu leikmenn. Þeir sköpuðu góð færi líka gegn Wales. Ef þeir horfa á þann leik, þá spiluðu þeir vel og það ætti að hjálpa þeim."
Hver er besta minningin gegn Tyrklandi
Jóhann Berg hefur tekið þátt í glæstum sigrum gegn Tyrklandi á síðustu árum. Hann var spurður að því á fundinum í dag hver væri sætasta minningin.
„Það var auðvitað leikurinn sem við tókum þá 3-0 og tryggðum okkur svo á HM stuttu síðar. Það voru svakaleg læti á vellinum við náðum að slökkva vel í þeim," sagði Jóhann Berg og bætti við:
„Vonandi getum við gert það aftur á morgun."
Leikur Tyrklands og Íslands hefst 18:45 annað kvöld og er auðvitað í beinni textalýsingu á Fótbolta.net.
Athugasemdir