Amad Diallo, hetja Manchester United í Evrópudeildinni í gær, var ánægður að geta loksins skorað og hjálpað liðinu að vinna, en liðið lagði PAOK að velli, 2-0, á Old Trafford.
Diallo skoraði bæði mörk United í leiknum en seinna var sérstaklega snoturt. Hann vann boltann af varnarmanni PAOK, hristi hann af sér og skaut fyrir utan teig í fjærhornið.
Sigurinn var ekki síður mikilvægur fyrir United sem var að vinna sinn fyrsta Evrópuleik á Old Trafford í 380 daga.
„Það er langt síðan við unnum siðast Evrópuleik. Í dag (gær) sýndum við ástæðu þess að við erum eitt besta liðið. Sigurinn var mikilvægur.“
„Það er mikilvægt að skora í hvert einasta skipti. Á þessu tímabili hef ég verið óheppinn en ég var ánægður að skora tvö í dag (gær). Það mikilvægasta var hins vegar að vinna leikinn.“
Diallo mátti til með að hrósa innkomu Ruud van Nistelrooy en hann hefur náð í tvo sigra og gert eitt jafntefli í þeim þremur leikjum sem hann hefur stýrt.
„Síðan hann kom til Manchester United hefur hann reynst öllum mikilvægur,“ sagði Diallo í lokin.
Athugasemdir