Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 09. febrúar 2021 19:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Telur að Steini Halldórs sé frábær kostur í starfið
Icelandair
Þorsteinn Halldórsson.
Þorsteinn Halldórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Auðvitað er ég að einhverju leyti hlutdrægur en mér finnst þetta borðliggjandi," sagði Daði Rafnsson, fótboltaþjálfari, um ráðningu KSÍ á Þorsteini Halldórssyni sem nýjum landsliðsþjálfara.

Þorsteinn hætti með Breiðablik til að taka við íslenska landsliðinu og var ráðning hans staðfest þann 28. janúar síðastliðinn.

Upphaflega átti Þorsteinn að tilkynna sinn fyrsta landsliðshóp í gær en það var beðið með það þar sem ólíklegt er að kvennalandslið Íslands fari á æfingamót í Frakklandi í febrúar eins og fyrirhugað var. Mótið er í óvissu út af kórónuveirufaraldrinum en Noregur hefur til að mynda dregið sig úr keppni.

Daði, sem starfaði í Breiðabliki á sama tíma og Þorsteinn, er ánægður með ráðninguna á honum. Þorsteinn var langmest orðaður við starfið áður en hann tók við, ásamt Elísabetu Gunnarsdóttur.

„Hann er frábær kostur í þetta starf og ég virkilega samgleðst honum að fá þetta tækifæri. Ég held að hann sé algjörlega klár í það og ég held að við getum sett þá pressu á þetta landslið að komast á næsta HM."

„Steini er ótrúlega fær þjálfari og mjög gott að vinna með honum. Hann hefur í raun og veru þeim árum sem hann hefur verið með Breiðablik, byggt upp þrjú lið sem hafa öll náð árangri. Við getum treyst því að hann kann að byggja upp lið."

„Hann er með ákveðna leikfræði sem er ekkert of flókin en mjög árangursrík. Hann undirbýr sig hrikalega vel. Það sem er mjög mikilvægt fyrir leikmenn er að þær geta alltaf treyst á að sama hvort þeir séu í liðinu eða út úr liðinu, þá geta þær verið alveg vissar um það að það sé einfaldlega af þeirri ástæðu að hann telur það best fyrir liðið á þeirri stendu. Það skiptir líka ekki máli hversu ung eða gömul, stór eða lítil, ef þú ert að standa þig þá áttu séns."

„Steini er hress en mikill fagmaður. Hann er ekki að reyna að gera leikmennina að vinum sínum eða þannig lagað. Hann er mjög faglegur í sinni nálgun... hann er hreinn og beinn í sínum samskiptum. Eitt það mikilvægasta sem ég lærði af honum var að vera hreinn og beinn þegar þú talar við leikmenn. Það er góður kostur fyrir þjálfara."

Þorsteinn vann þrjá Íslandsmeistaratitla og tvo bikarmeistaratitla sem þjálfari Breiðabliks. Einnig náði hann góðum árangri í Evrópukeppni þar sem toppurinn var að komast í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar 2019. Daði talaði um að það hefði verið mikið afrek og það hefðu komið fyrirspurnir í Steina erlendis frá. Það sé mikill fengur fyrir íslenska landsliðið að fá hann til starfa.

Hægt er að hlusta á umræðuna í Heimavellinum hér fyrir neðan.
Heimavöllurinn - Steini fékk giggið, gullfótur í Kópavog og stórliðin horfa til Íslands
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner