Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   þri 09. júlí 2024 17:03
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Jason Daði seldur til Grimsby (Staðfest)
Mynd: Grimsby
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik tilkynnti rétt í þessu að félagið hefði náð samkomulagi við enska félagið Grimsby um kaup enska félagsins á Jasoni Daða Svanþórssyni. Hann hefur því spilað sinn síðasta leik í bili fyrir Breiðablik.

Félagaskiptin hafa legið í loftinu að undanförnu en Fótbolti.net greindi fyrst frá því hvaða félag væri að sækjast eftir kröftum Jasonar. Það er ljóst að Breiðablik er að missa algjöran lykilmann í liði sínu. Jason átti innan við hálft ár eftir af samningi sínum við Breiðablik.

„Hann hefur verið gríðarlega öflugur fyrir okkur Blika, spilaði 136 leiki og skoraði í þeim leikjum 42 mörk. Sumarið 2024 hefur Jason spilað 12 leiki í Bestu deildinni og skorað í þeim 5 mörk. Jason Daði varð Íslandsmeistari með Blikum sumarið 2022 ásamt því að vera hluti af liðinu sem komst fyrsta allra íslenskra karlaliða í riðlakeppni í Evrópu 2023. Takk Jason Daði fyrir allt, við óskum þér góðs gengis í komandi verkefnum," segir í tilkynningu Breiðabliks.

Í tilkynningu Grimsby segir að Jason skrifi undir tveggja ára samning við félagið. Jason er 24 ára vængmaður sem á að baki fimm leiki fyrir A-landsliðið. Frá komu sinni frá Aftureldingu hefur hann verið lykilmaður í liði Breiðabliks.

„Ég er hæstánægður að við gátum fengið Jason. Ég hef séð hann spila nokkrum sinnum, hann getur skorað mörk af kantinum og tengt spil. Við höfðum betur í baráttunni við mörg félög sem höfðu áhuga, félög alls staðar að úr heiminum, en hann valdi okkur þar sem hann telur okkar félag vera það besta til að taka næsta skref á ferlinum. Ég er mjög spenntur að vinna með honum og sjá hvað hann getur gert fyrir félagið," sagði David Artell sem er þjálfari Grimsby.

„Þetta er stórkostleg tilfinning og ég er mjög spenntur að byrja. England er svo stór fótboltaþjóð að ég held að allir vilji spila á Englandi. Ég hef kynnt mér félagið og ég hef heyrt að stuðningsmennirnir séu frábærir og er spenntur að sjá þá. Ég er kantmaður sem vill búa til mörk og einnig skora mörk. Vonandi get ég gert það hjá Grimsby," sagði Jason Daði við undirskrift.

Grimsby spilar í ensku D-deildinni, League Two.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner