Jason Daði Svanþórsson virðist vera að ganga í raðir Grimsby frá Breiðabliki. Jason fór til Englands í síðustu viku og allt bendir til þess að félagaskiptin gangi í gegn á næstunni.
Fótbolti.net ræddi við Halldór Árnason, þjálfara Breiðabliks, í gær og bjóst hann við því að Jason yrði seldur í sumar.
Fótbolti.net ræddi við Halldór Árnason, þjálfara Breiðabliks, í gær og bjóst hann við því að Jason yrði seldur í sumar.
Fótbolti.net ræddi við Bjarka Má Ólafsson í dag en Bjarki er umboðsmaður Jasonar.
„Jason er staddur á Englandi að ganga frá sínum málum. Félögin eru langt komin í sínum viðræðum," sagði Bjarki.
Það er ekki gefið að fá atvinnuleyfi á Englandi eftir Brexit. En það ætti ekki að verða mikið vandamál í þessu tilfelli þar sem hægt er að sækja um undanþágu.
„Á Englandi máttu einungis vera með takmarkaðan fjölda leikmanna sem fá ekki atvinnuleyfi. Þegar leikmaður er fenginn inn á 'exception spot' þá gefur það auga leið hvað félagið er að leggja á sig til að fá leikmanninn. Það er ekki algengt að félög í D-deildinni séu að nýta sér þessa undanþágu, því fylgir ákveðið ferli. Það að félagið sé að nýta sér þessa leið til að fá Jason sýnir metnaðinn hjá þeim."
Bjarki var spurður hvernig Grimsby veit af Jasoni. „Það er fyrst og fremst frábær spilamennska hans sem dregur að áhuga þeirra. Í þessu tilfelli er þetta félag, eins og sagt var í útvarpsþættinum ykkar, sem vinnur sína vinnu mjög vel. Það eru komnir inn mjög sterkir aðilar í félagið sem eru að vinna á mjög skilvirkan og klókan hátt á leikmannamarkaðnum."
Í ensku B-deildinni, Championship, geta félög sótt um undanþágu fyrir fjóra leikmenn og í C- og D-deildinni geta tveir leikmenn fengið undanþágu. Grimsby er í League Two, D-deildinni.
Athugasemdir