Liverpool mun ekki selja Chiesa - Völdu Onana fram yfir Ortega - Arsenal líklegasti áfangastaður Stiller - Real Madrid horfir til Bayern
   þri 09. september 2025 20:50
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Gríðarlega súrt tap í Frakklandi
Icelandair
Mynd: EPA
Frakkland 2 - 1 Ísland
0-1 Andri Lucas Guðjohnsen ('21 )
1-1 Kylian Mbappe ('45 , víti)
2-1 Bradley Barcola ('62 )
Rautt spjald: Aurélien Tchouaméni, Frakkland ('67)
Lestu um leikinn

Ísland heimsótti Frakkland í 2. umferð í undankeppni HM en Ísland vann stórsigur á Aserbaísjan á Laugardalsvelli og Frakkland vann Úkraínu ytra í fyrstu umferð.

Ísland fékk draumabyrjun því Andri Lucas Guðjohnsen kom liðinu yfir eftir frábæra pressu. Ísak Bergmann Jóhannesson pressaði vel á Michael Olise inn í teig Frakka.

Olise átti slæma sendingu þvert yfir teiginn beint á Andra sem skoraði með viðstöðulausu skoti.

Frakkar voru sterkir í kjölfarið en Elías Rafn Ólafsson átti frábæran leik i marki Íslands. Undir lok fyrri hálfleiks náðu Frakkar hins vegar að jafna metin þegar Kylian Mbappe skoraði úr vítaspyrnu, sendi Elías í vitlaust horn.

Eftir klukkutíma leik sofnuðu varnarmenn Íslands á verðinum og Mbappe komst í gegn eftir langa sendingu fram völlinn. Hann renndi boltanum á Bradley Barcola sem skoraði á opið markið.

Stuttu síðar fékk Aurelien Tchouameni að líta rauða spjaldið fyrir ljótt brot á Jóni Degi Þorsteinssyni og það var því gott tækifæri fyrir Ísland að komast inn í leikinn.

Þegar tvær mínútur voru til loka venjulegs leiktíma átti Hákon Arnar Haraldsson fyrirgjöf og Andri Lucas átti skot beint á Mike Maignan en hann fékk boltann aftur og rölti með boltann inn í teiginn.

Frakkar voru hins vegar ekki ánægðir með þetta og dómarinn skoðaði atvikið í VAR og dæmdi markið af þar sem hann taldi að Andri Lucas hafi brotið á Ibrahima Konate.

Íslenska liðið var með öll völd á vellinum í uppbótatímanum en tókst ekki að skora jöfnunarmarkið og því var ótrúlega svekkjandi tap niðurstaðan.
Athugasemdir