Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   mán 09. nóvember 2020 13:04
Elvar Geir Magnússon
Arnór Ingvi hundfúll en segir ákvörðunina rétta - „Verður asnalegt á fimmtudag"
Icelandair
Arnór Ingvi átti flottan leik gegn Rúmenum.
Arnór Ingvi átti flottan leik gegn Rúmenum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það hefur verið tilhlökkun fyrir þessum leik lengi og skyndilega er honum kippt frá manni. Maður er auðvitað hundfúll," segir Arnór Ingvi Traustason sem verður ekki með íslenska landsliðinu í úrslitaleiknum gegn Ungverjalandi á fimmtudaginn.

Smit kom upp í leikmannahópi Malmö þar sem Arnór Ingvi spilar og var tekin sú ákvörðun að taka enga áhættu og Arnór situr því heima. Hann segir að þetta sé mikið högg en segir ákvörðunina skynsama.

„Þetta er það. Maður hefur verið í sambandi við þá síðan í gær. En við tókum þá ákvörðun núna að ég myndi ekki ferðast í þennan leik. Við viljum ekki taka neina áhættu, ég gæti verið með veiruna og smitað út frá mér og valdið usla með því. Það er best fyrir alla að halda öllum öruggum og mér sjálfum líka. Það er besta ákvörðunin sem hægt var að taka núna," segir Arnór.

Hann var í byrjunarliðinu og átti flottan leik gegn Rúmenum í umspilinu og vond tíðindi að geta ekki notað krafta hans á fimmtudag.

„Það er hundfúlt að taka ekki þátt í þessu. En svona er þetta bara. Maður getur ekkert gert í þessu ástandi, þetta er staðan í heiminum núna og maður verður bara að kyngja því. Maður verður að taka þessu eins og þetta kemur."

Vinnum á fimmtudag og sjáumst á EM
Arnór mun því horfa á leikinn heima í stofu á fimmtudaginn, eitthvað sem hann bjóst ekki við að gera.

„Það verður mjög skrítið, það verður bara asnalegt. En ég þarf bara að taka því," segir Arnór sem hefur fulla trú á því að Ísland vinni sigur í Búdapest.

„Ég hef fulla trú á að liðið vinni þennan leik á fimmtudaginn og við sjáumst á EM. Möguleikarnir eru góðir en leikurinn verður erfiður. Við höfum beðið eftir þessum leik allt árið og ég held að menn séu það gíraðir í þetta að við förum áfram. Það er það bara eina markmiðið. Við áttum góðan riðil í undankeppninni, Tyrkir höfðu heppnina með sér en við klárum þetta á fimmtudaginn," segir Arnór Ingvi Traustason.

Leikur Ungverjalands og Íslands verður klukkan 19:45 á fimmtudaginn. Leikið verður til þrautar og sigurliðið spilar á EM á næsta ári.
Athugasemdir
banner
banner
banner