Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fim 10. nóvember 2022 22:55
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Matti fer yfir ákvörðunina: Eitt af mínum erfiðustu símtölum á ævinni
Mættur í rautt og svart.
Mættur í rautt og svart.
Mynd: Einar Ingi Ingvarsson
Erfið ákvörðun að fara frá FH.
Erfið ákvörðun að fara frá FH.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Heimir er tekinn aftur við FH.
Heimir er tekinn aftur við FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með FH í sumar.
Í leik með FH í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Verður í Fossvoginum næstu tvö árin.
Verður í Fossvoginum næstu tvö árin.
Mynd: Einar Ingi Ingvarsson
„Þetta var erfið ákvörðun. Það er mjög eðlilegt með öll mín tengsl við FH," segir Matthías Vilhjálmsson, nýjasti leikmaður bikarmeistara Víkinga.

Matthías, sem er 35 ára, kom heim eftir 10 ár í atvinnumennsku í fyrra og gekk til liðs við FH. Samningur hans við Hafnarfjarðarfélagið rann út eftir tímabilið í sumar.

Í dag var það tilkynnt að hann hefði gert tveggja ára samning við Víking. Þetta er ákvörðun sem kom mörgum á óvart þar sem hann hefur bara spilað með FH í meistaraflokki hér á landi, fyrir utan einn bikarleik með BÍ í upphafi ferilsins.

„Ég kom í FH þegar ég var 16 ára og hef verið í FH í tíu ár af mínu lífi. Þetta var alltaf að fara að vera erfitt. Ég er auðmjúkur og þakklátur fyrir allt það sem þau hafa gert fyrir mig og vonandi hef ég skilað einhverju til baka. Ég fann að mig langaði að breyta til og prófa eitthvað nýtt."

Valið stóð á milli Víkings og FH
Eftir að tímabilinu lauk þá fóru sögur á kreik um áhuga fjölda félaga á þessum öfluga leikmanni. Það heillaði fyrir Matthías að prófa nýtt umhverfi á Íslandi áður en ferlinum lýkur. Það var núna eða aldrei.

„Ég hef aldrei prófað neitt annað á Íslandi, að fara í nýtt umhverfi. Það er heiður fyrir mig á þessum tímapunkti ferilsins að toppfélag á Íslandi - og að mínu mati liðið sem spilar einn allra skemmtilegasta boltann á Íslandi - skuli sýna mér þetta mikinn áhuga. Það freistaði mín mjög."

„Ef ég ætlaði einhvern tímann að prófa eitthvað annað á Íslandi þá var þetta tímapunkturinn til þess. Það var núna eða aldrei. Mér langaði að fara í Víking og heillaðist mjög af hugmyndum Arnars (Gunnlaugssonar, þjálfara Víkinga). Arnar hefur sýnt fram á það að hann er frábær þjálfari; sigursælasti þjálfari landsins síðustu 2-3 árin. Hann hefur unnið þrjá bikarmeistaratitla í röð og Íslandsmeistaratitil. Ég vildi fá nýja áskorun líka, komast í bullandi samkeppni og í lið sem ég tel nýtast mínum styrkleikum mjög vel. Vissulega var þetta erfið ákvörðun og ég held að allir skilji það."

Valið stóð bara á milli Víkinga og FH. Hlutirnir fóru að gerast eftir að tímabilinu lauk, en hann vildi fyrst einbeita sér að því að hjálpa FH að bjarga sér frá falli.

„Fólk var farið að spyrja mig út í sögusagnir á miðju tímabili og þá frysti ég allar þannig hugsanir. Ég lagði allt á ís og vildi bara einbeita mér að FH. Það var ærið verkefni að vera í þessari baráttu sem við vorum í á lokasprettinum. Það var rosalega erfitt. Beint eftir tímabil þá heyrði ég af áhuga og þá gerðust hlutirnir hratt. Ég sá ekki neitt tilboð fyrr en ég var í fríi um síðustu helgi."

„Það var einhver áhugi en Víkingur og FH var það eina sem kom til greina hjá mér. Þetta eru tvö risa félög. Það var ekkert annað."

„Ég tók loka ákvörðunina í gær. Þetta er búið að vera heilabrjótur en núna er ég mjög ánægður með þessa ákvörðun. Ég hlakka mjög til að kynnast strákunum. Ég þekki nokkra nú þegar. Ég þekki þjálfarana, Arnar og Sölva, ágætlega. Ég þekki Kára líka. Ég spilaði með Ingvari í Start og ég þekki Dodda Inga úr yngri landsliðunum. Það er líka skemmtilegt að kynnast nýju fólki og ég er spenntur fyrir því. Ég er strax búinn að fá skilaboð frá nokkrum og þetta eru toppmenn allir. Ég hlakka til að koma mér inn í hlutina, það verður mjög gaman."

Ég á Heimi ótrúlega mikið að þakka
Heimir Guðjónsson var ráðinn sem þjálfari FH og var tilkynnt um það síðasta þriðjudagskvöld. Hann vildi ólmur halda Matta hjá félaginu en fékk ekki ósk sína uppfyllta. Matti segir að hann eigi Heimi mikið að þakka en þeir unnu saman í FH á árum áður.

„Mér finnst þetta frábær ráðning. Ég held að FH sé í toppmálum með að fá Heimi heim. Ákvörðun mín að fara hefur ekkert með Heimi að gera," segir Matthías.

„Ég á Heimi ótrúlega mikið að þakka frá því fyrr á ferlinum. Hann á mikinn þátt í mínum ferli, hann gerði mig að fyrirliða í fyrsta skiptið og er algjör fagmaður. Hann er strax búinn að óska mér til hamingju með vistaskiptin. Hann gerði það af mikilli fagmennsku og ég kann rosalega að meta það þegar fólk sýnir svona fagmennsku. Ég held að FH sé í toppmálum og ég er 100 prósent viss um að hann muni snúa gengi liðsins við. Það verður gaman að fylgjast með því."

Hann segir það hafa verið virkilega erfitt að tilkynna FH-ingum það að hann væri á förum í Víking.

„Þetta var eitt af mínum erfiðustu símtölum á ævinni. Ég er heiðarlegur með það. Út af öllum minningunum og tengslunum. Þó það var erfitt þá var þetta eitthvað sem mig langaði að gera. Þetta er ný áskorun, fá bullandi samkeppni og að prófa nýtt umhverfi. Það var lykillinn að þessu."

FH var að enda við það að ljúka erfiðu tímabili þar sem liðið bjargaði sér frá falli á markatölu. Matti skoraði níu mörk í 26 leikjum í Bestu deildinni fyrir FH í sumar og hjálpaði liðinu að bjarga sér frá falli með gífurlega mikilvægri þrennu gegn Leikni í úrslitakeppninni.

„Fyrst og fremst var þetta tímabil mjög skrautlegt. Ég held að það séu allir sammála um það. Það þarf að fá festu í félagið og ég held að þeir séu að gera það með því að fá Heimi inn og ráða hann til þriggja ára," segir Matti en hvað þarf að breytast í Kaplakrika?

„Það er búið að vera mikið um þjálfaraskipti síðustu tvö, þrjú árin. Það hafa líka komið upp alls konar mál sem hafa truflað, mál sem tengjast fótbolta ekki á neinn hátt. En eins og ég segi, þá er ég 100 prósent viss um að Heimir komi inn með gleði. Hann þekkir allt í Krikanum og er rosalega vinsæll. Það er verðskuldað eftir allt sem hann hefur gert fyrir félagið. Ég ítreka það að ég hef engar áhyggjur af FH."

Hann vill bara að ég sé nálægt boxinu
Arnar Gunnlaugs, þjálfari Víkinga, talaði um það opinberlega undir lok tímabilsins að hann vildi fá Matta yfir í Fossvoginn. „Fólk segir að hann hafi átt lélegt tímabil, hann skoraði þó níu mörk og ég held að hann hafi einfaldlega verið að hlaupa alltof mikið fyrir alltof marga leikmenn í FH. Við höfum klárlega áhuga á honum og fleiri sterkum mönnum," sagði Arnar.

Kom það Matta á óvart hvernig Arnar talaði þarna?

„Hann horfir greinilega mikið á fótbolta og þetta er örugglega hárrétt. Ég er pottþétt að hlaupa einhver heilalaus hlaup því ég vill svo mikið. Hann nær vonandi að beisla það hjá mér. Ég get allavega hlaupið enn, það er mjög jákvætt. Ef ég get nýtt orkuna í það sem skiptir máli, þá er það enn betra fyrir mína frammistöðu."

„Ég kem inn með mína reynslu og hjálpa til við að halda áfram þessari velgengni sem hefur verið þarna síðustu ár. Síðan veit hann að ég get spilað nokkrar stöður. Það verður að koma í ljós hvar ég spila og allt þannig. Það er undir mér komið að standa mig. Ég held að kallinn (Arnar) sé nýkominn frá Tene og við eigum eftir að fara enn betur yfir þetta."

„Hann er búinn að viðra einhverjar hugmyndir. Hann vill bara að ég sé nálægt boxinu, þar sem ég er hættulegastur. Hann vill meina að styrkleikar mínir nýtist best þar. Ég er sammála þeirri hugmynd og hlakka mjög til að vinna með honum og með þeim öllum."

Matti og Arnar spiluðu saman í FH fyrir mörgum árum síðan. Hann segir að þeir bræður, Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir, séu miklir fagmenn.

„Ég þekki þá bræður (Arnar og Bjarka) mjög vel. Þeir voru í FH og voru þvílíkir fagmenn, með enga stæla. Þegar maður var að koma upp sem ungur leikmaður þá voru þeir alltaf til í að hjálpa, bæði Arnar og Bjarki. Maður man eftir því - þó það sé orðið langt síðan - hversu miklir fagmenn þeir voru. Þeir mættu eftir frábæran feril og gáfu þvílíkt mikið af sér til yngri leikmanna. Ungir leikmenn muna eftir svona hlutum, þetta var til fyrirmyndar. Maður man eftir svona hlutum."

Markmiðin eru alveg skýr í Fossvoginum.

„Markmiðið er að berjast um báða titla og að komast langt í Evrópu, ég held að það sé ekkert launungarmál. Þeir stóðu sig frábærlega í Evrópukeppninni í ár og unnu bikarinn. Breiðablik var besta liðið á Íslandi í ár og vann verðskuldað. Víkingar ætla að bæta leik sinn og það er geggjað að fá að taka þátt í því. Ég hlakka mikið til," segir nýjasti leikmaður Víkinga.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner