Spekingurinn og þjálfarinn Lárus Orri Sigurðsson segir það hafa komið sér örlítið á óvart að Jóhann Berg Guðmundsson hafi verið tekinn inn í landsliðshópinn fyrir leikina mikilvægu gegn Aserbaídsjan og Úkraínu í undankeppni HM í þessum mánuði.
Arnar Gunnlaugsson tók inn tvo reynslumikla leikmenn í hópinn fyrir verkefnið en Jóhann Berg sneri aftur ásamt Herði Björgvini Magnússyni.
Þeim er ætlað að hjálpa yngri leikmönnum að stíga upp, en Lárus Orri, sem hefur verið sérfræðingur í kringum landsleiki Íslands, segist skilja pælinguna hjá Arnari, en að valið hafi samt sem áður verið heldur óvænt.
„Mér líst fínt á hópinn og verið mjög gaman af þessu síðan Arnar tók við. Miklar sviptingar og mikil læti eigum við að segja og komið mikil ástríða fyrir landsliðinu aftur. Kom mér á óvart að Jóhann Berg hafi komið aftur inn og fannst eins og Aron hafi verið að sinna þvi hlutverki sem Jóhann á kannski líka að koma inn í en ég skil pælinguna hjá Arnari að fá þessa stráka inn með þessa reynslu. Þetta verða gríðarlega erfiðir leikir og krefjandi á útivöllum og veitir því ekki af reynslu inn í hópinn en allt fyrir utan það kom kannski ekkert á óvart,“ sagði Lárus við Fótbolta.net.
Sævar Atli Magnússon hefur byrjað síðustu tvo landsleiki og reynst öflugur í pressunni, en hann er frá vegna meiðsla. Lárus telur landsliðið vel mannað fram á við.
„Nei, kannski ekki beint það. Hann er með hellings möguleika þarna fram á við og það sem ég er spenntastur fyrir að sjá hvernig hann ætlar að tækla leikinn úti á móti Aserum. Ég er að vonast til að hann fari í hápressu eins og við gerðum á Laugardalsvelli þó þetta sé sennilega allt annað lið sem við erum að fara takast á við. Nýr þjálfari og gengið nokkuð vel eftir að við tókum þá í gegn hérna heima.“
Lárus segist bæði spenntur og stressaður fyrir leikjunum sem framundan eru.
„Ég er spenntastur að sjá leikplanið. Hann fer pottþétt í einhverja pressu en hvernig hann fer í hana verður mjög spennandi að sjá.“
„Er maður ekki alltaf drullu stressaður fyrir leikjum hjá Íslandi? Það eru svo miklar tilfinningar í þessu. Það vilja allir að það gangi vel og þegar maður býst við sem mestu þá er maður laminn niður en þegar maður býst við engu þá standa þeir sig vel. Ég er spenntur og stressaður,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir


