Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   mið 11. janúar 2023 18:19
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Klæmint: Væri sennilega ekki á Íslandi ef NSÍ hefði ekki fallið
Þetta er skref upp á við fyrir mig
Þetta er skref upp á við fyrir mig
Mynd: Getty Images
Ramos mætti ofjarli sínum í skallaeinvígi.
Ramos mætti ofjarli sínum í skallaeinvígi.
Mynd: Getty Images
Guðjón var með Jens Martin Knudsen sér til aðstoðar hjá NSÍ.
Guðjón var með Jens Martin Knudsen sér til aðstoðar hjá NSÍ.
Mynd: NSÍ
Patrik skrifaði undir hjá Breiðabliki í nóvember.
Patrik skrifaði undir hjá Breiðabliki í nóvember.
Mynd: blikar.is
Håkan vildi að Klæmint færi í annað lið.
Håkan vildi að Klæmint færi í annað lið.
Mynd: Getty Images
Klæmint Olsen gekk í raðir Breiðabliks í síðasta mánuði. Hann verður á láni út komandi tímabili frá færeyska félaginu NSÍ Runavík. Klæmint er 32 ára framherji sem er markahæsti leikmaður i sögu færeysku deildarinnar og færeyska landsliðsins.

Hann er kominn til Íslands þar sem NSÍ féll úr Betri deildinni, sem er efsta deild þar í landi, og verður í næstefstu deild á komandi tímabili. Fótbolti.net ræddi við markaskorarann í dag og spurði hann út í skiptin.

„Ákvörðunin var ekki auðveld. Erfiðast við hana var að taka skrefið að flytja frá Færeyjum. En núna er ég kominn hingað og ég er á því að þetta sé rétt ákvörðun," sagði Klæmint.

„Ég hafði möguleika á því að fara í önnur lið í Færeyjum en þegar Breiðablik sýndi áhuga þá var ég ekki í neinum vafa um að það væri rétta skrefið. Þetta er skref upp á við fyrir mig."

Hann segir að íslenska deildin sé heilt yfir sterkari en sú færeyska en bestu liðin í Færeyjum gætu þó einnig gert góða hluti í Bestu deildinni.

Kveikir ekki í mér að spila í næstefstu deild
Klæmint hefur leikið allan sinn feril með NSÍ og hefur alls skorað 215 mörk í 311 deildarleikjum, öllum í efstu deild. Hann segir að hann hefði eflaust ekki farið til Íslands ef liðið hefði ekki fallið.

„Ef við hefðum ekki fallið, þá væri ég sennilega ekki á Íslandi núna. Hjarta mitt mun alltaf slá í takt við NSÍ, en að spila í næstefstu deild kveikir ekki í mér á þessu stigi ferilsins. Ég vildi meira."

„Það var mikið sjokk að falla úr deildinni, enginn trúði því að það gæti gerst. En allt getur gerst í fótbolta."


Fullkomlega sammála landsliðsþjálfaranum
Landsliðsþjálfari Færeyja, Håkan Ericson, sagði að Klæmint gæti ekki spilað í næstefstu deild ef hann ætlaði að halda sæti sínu í landsliðinu. Hvað fannst Klæmint um þau ummæli þjálfarans?

„Ég er fullkomlega sammála þjálfaranum, ég væri ekki nægilega klár í að spila í landsliðinu ef ég væri að spila í næstefstu deild."

„Það að spila fyrir þjóð mína er stærsti draumur minn og ég mun berjast fyrir landið mitt eins lengi og ég get."


Átti sitt besta tímabil undir stjórn Guðjóns
Förum til baka til ársins 2019. Þá var Guðjón Þórðarson þjálfari NSÍ. Það tímabil endaði NSÍ í þriðja sæti og Klæmint skoraði 26 mörk í 27 deildarleikjum. Hvernig var að vinna með honum?

„Guðjón er frábær maður. Hann er með stóran persónuleika og þekkir allar hliðar leiksins. Fólk talar enn um hann í Runavík."

„Ég átti mitt besta tímabil þegar hann var þjálfari NSÍ, svo ég hef ekkert nema góða hluti um hann að segja."


Heyrt af áhuga en aldrei verið nálægt því að fara til Íslands
Hjá Breiðabliki hittir Klæmint fyrir Patrik Johannessen. Patrik kom til Breiðabliks frá Keflavík í vetur en hann og Klæmint spila saman með færeyska landsliðinu.

„Ég þekki Patrik úr landsliðinu, það verður áhugavert og ég hlakka til að spila með honum hjá Breiðabliki."

Á Íslandi hefur nafn Klæmint stundum verið í umræðunni sem mögulegur kostur fyrir lið í efstu deild, við fréttaleit á Fótbolta.net hefur það þó aldrei farið svo langt að hann hafi verið orðaður við íslenskt félag í fjölmiðlum.

Hefur Klæmint vitað af áhuga frá Íslandi áður en Breiðablik kom til sögunnar í lok síðasta árs?

„Það hefur verið áhugi frá öðrum íslenskum félögum í gegnum tíðina, en það hefur í raun aldrei verið nálægt því að verða að félagaskiptum."

Vill alltaf vinna - Enginn veit hvað gerist í framtíðinni
Áður en Klæmint fór til Íslands skrifaði hann undir framlengingu á samningi sínum við NSÍ. Hvað vill hann afreka á Íslandi og með Breiðabliki?

„Ég vil alltaf vinna, ég vil vinna með Breiðabliki líka. Vonandi verð ég laus við meiðsli og get haft góð áhrif á liðið með frammistöðu minni." Kæmi til greina að taka annað tímabil með Blikum ef frammistaðan í grænu treyjunni verður góð?

„Núna er ég bara einbeittur að því að gera sem best með Breiðabliki á komandi tímabili, enginn veit hvað gerist í framtíðinni."

Í lok viðtals sagði Klæmint svo að fjölskylda sín væri sem stendur í Færeyjum en myndi koma til Íslands þegar liðið væri á árið og yrði hér á landi í sumar.
Athugasemdir
banner
banner
banner