Breiðablik tekur á móti Shamrock Rovers í Sambandsdeildinni í dag í mikilvægum leik fyrir bæði lið.
Blikar eiga tvö stig eftir fjórar umferðir á meðan Shamrock er aðeins með eitt stig. Bæði lið þurfa því á sigri að halda til að eiga einhverja möguleika um að halda sér inni í keppninni.
Þetta er önnur innbyrðisviðureign liðanna eftir að þau mættust í forkeppni Meistaradeildarinnar fyrir meira en tveimur árum síðan. Breiðablik vann báða leikina heima og úti í það skiptið, en Shamrock hefur skipt út flestum leikmönnum liðsins síðan þá.
Það lítur út fyrir að Shamrock muni mæta á Laugardalsvöllinn með fjóra leikmenn sem byrjuðu leikinn í 2-1 tapi á Íslandi sumarið 2023.
„Þeir eru kannski með nýjan þjálfara (Ólaf Inga Skúlason) en byrjunarliðið er mjög svipað og það var fyrir tveimur árum. Meirihluti byrjunarliðsins sem við mættum hérna er ennþá hjá félaginu og við vitum hvers þeir eru megnugir," sagði Stephen Bradley þjálfari Shamrock Rovers á fréttamannafundi í gær. „Ég býst ekki við að þeir séu búnir að skipta um leikstíl eftir þjálfaraskiptin. Hann er nýlega tekinn við og hefur í raun ekki haft tíma til að breyta leikskipulagi liðsins.
„Þetta er ekki lið sem situr í vörn og notar skyndisóknir, þetta er lið sem elskar að vera með boltann og sækja.
„Við erum búnir að bæta okkur mikið á síðustu tveimur árum. Við höfum öðlast mikla reynslu í Evrópukeppnum og erum búnir að búa til leikmannahóp sem hentar fyrir fótboltann sem við viljum spila.
„Áður fyrr vorum við barnalegir og gerðum mikið af klaufalegum mistökum. Þannig var það þegar við töpuðum hérna gegn Breiðabliki, þeir voru betri og verðskulduðu að sigra en við erum miklu betra lið í dag heldur en við vorum þá."
10.12.2025 20:37
Þjálfari Shamrock ósáttur með Heimi Hallgrímsson
Athugasemdir




