Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
   mán 12. febrúar 2024 11:20
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Geta ekki veitt frekari upplýsingar um mál Alberts
Albert Guðmundsson.
Albert Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Enn er óvíst hvort að Albert Guðmundsson geti spilað með íslenska landsliðinu þegar liðið spilar í umspili fyrir Evrópumótið í næsta mánuði.

Landsliðið mætir Ísrael í undanúrslitum í umspilinu og ef liðinu tekst að vinna þann leik, þá er það annað hvort Bosnía eða Úkraína í hreinum úrslitaleik um sæti á lokamótinu.

Albert hefur ekki spilað með íslenska landsliðinu síðan í júní á síðasta ári en í ágúst var hann kærður fyrir kynferðisbrot.

Samkvæmt verklagi KSÍ hefur hann ekki spilað með landsliðinu síðan málið kom upp en leikmenn sem eru til rannsóknar geta ekki verið valdir.

Mál Alberts var sent inn til héraðssaksóknara í desember síðastliðnum að lokinni rannsókn lögreglu. Héraðssaksóknari tekur ákvörðun um það hvort Albert verði ákærður eða málið látið falla niður.

Fótbolti.net hafði samband við skrifstofu héraðssraksóknara með það fyrir augum að fá fleiri upplýsingar um stöðu mála, en fékk þau svör að málið væri til afgreiðslu hjá embættinu en ekki væri hægt að veita frekari upplýsingar um stöðu þess á þessum ákveðna tímapunkti.

Málið hefur ekki haft áhrif á stöðu Alberts hjá félagsliði hans, Genoa á Ítalíu, en hann hefur leikið afskaplega vel í ítölsku A-deildinni og verið einn af bestu leikmönnum deildarinnar. Hann hefur verið orðaður við önnur félög, þar á meðal stórlið á Ítalíu á borð við Juventus og Fiorentina. Newcastle og West Ham á Englandi eru einnig sögð áhugasöm um hann.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner