Garnacho vill ekki til Arabíu - Bayern gæti reynt við Trossard - Ferguson hefur gert munnlegt samkomulag við Roma
   þri 13. apríl 2021 16:05
Magnús Már Einarsson
Sonur Solskjær svarar Mourinho: Ég fæ alltaf að borða
Noah, sonur Ole Gunnar Solskjær stjóra Manchester United, segist alltaf fá nóg að borða heima hjá sér. Noah vísaði þar í ummæli Jose Mourinho eftir sigur Manchester United gegn Tottenham um helgina.

Solskjær var ósáttur við mark sem var dæmt af United eftir aðstoð VAR. Edinson Cavani skoraði en markið var dæmt af eftir VAR-skoðun. Það var metið sem svo að Scott McTominay hefði brotið á Son í aðdragandanum.

„Þetta var fullkomlega löglegt mark. Ég verð að segja að ef sonur minn liggur svona í þrjár mínútur eftir svona högg og þarf tíu vini sína til að hjálpa sér upp, þá fær hann ekki að borða. Við vorum ekki blekktir, dómarinn var það," sagði Solskjær reiður eftir leik.

Jose Mourinho, stjóri Tottenham, svaraði þessum ummælum með því að segja: „Sonny er mjög heppinn að faðir hans er betri manneskja en Ole. Sem faðir þá þarftu alltaf að gefa börnum þínum að borða, það skiptir ekki máli hvað þau gera. Þú þarft samt að gefa börnum þínum að borða."

Noah, sonur Solskjær, tjáði sig um málið í samtali við Tidens Krav í Noregi. „Ég hló að þessu. Ég get lofað því að ég fæ alltaf að borða. Ég held að Mourinho hafi bara verið að taka einbeitinguna frá því að hann tapaði leik."
Athugasemdir
banner
banner