Inter í kapphlaupið um Guehi en Liverpool leiðir - Wharton ofar en Baleba á lista Man Utd - Muscat líklegastur til Rangers
   mið 15. október 2025 18:13
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Eins og hefði verið ýtt á takka og ákveðið að ég myndi bara ekki spila mikið meira"
'Ég náði engum takti út af meiðslunum í byrjun og var svo bara kippt út, smá sorgarsaga. Ég er nokkurn veginn búinn að vera bara æfingaleikmaður í sumar'
'Ég náði engum takti út af meiðslunum í byrjun og var svo bara kippt út, smá sorgarsaga. Ég er nokkurn veginn búinn að vera bara æfingaleikmaður í sumar'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég get ekki vælt yfir því, það er bara ákvörðun þjálfarans og ég verð að taka því'
'Ég get ekki vælt yfir því, það er bara ákvörðun þjálfarans og ég verð að taka því'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skoraði 2-2 markið til að jafna gegn Silkeborg á Greifavellinum.
Skoraði 2-2 markið til að jafna gegn Silkeborg á Greifavellinum.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Tognaði í byrjun leiks gegn Víkingi snemma móts.
Tognaði í byrjun leiks gegn Víkingi snemma móts.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bikarmeistaratitlinum fagnað með KA.
Bikarmeistaratitlinum fagnað með KA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þetta hefur verið ósköp leiðinlegt, varðandi spiltímann, í sumar'
'Þetta hefur verið ósköp leiðinlegt, varðandi spiltímann, í sumar'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Mér líður eins og ég eigi góð 2-3 ár eftir og mögulega eitt lélegt'
'Mér líður eins og ég eigi góð 2-3 ár eftir og mögulega eitt lélegt'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég skil svo þá að vera ekki að breyta miklu.'
'Ég skil svo þá að vera ekki að breyta miklu.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það var alltaf planið eftir þetta tímabil að flytja suður. Eins og tímabilið hefur verið þá var vitað að ég yrði ekki áfram, það vita það báðir aðilar. Ég var heldur ekkert mikið að falast eftir því út frá hvernig tímabilið hefur spilast, maður vill vera í fótbolta til að spila," segir Viðar Örn Kjartansson sem verður ekki með KA á næsta tímabili.

Hann ræddi við Fótbolta.net í dag. Hann er að klára sitt annað tímabil með liðinu en hefur ekki spilað mikið í sumar.

„Ég fattaði það bara mjög snemma og þótti það leiðinlegt"
„Ég kem í fyrra til KA, var í engu standi og er svolítið lengi í gang. Þegar ég svo kemst inn í liðið þá komumst við á magnað skrið, fórum úr einhverjum örfáum stigum í það að vera hársbreidd frá efri hlutanum, vinnum bikarinn og komumst í Evrópu. Við vorum að vinna stærri liðin heima, oft öruggt, og ég komst sjálfur í gang þegar leið á. Ég átti þátt í nokkuð mörgum mörkum og þetta var virkilega flott eftir fyrri umferðina."

„Það var planið að byggja ofan á það, ýmislegt sem ég lagði á mig í vetur til að gera það. Ég lenti í því að meiðast í janúar, fannst mér ég vera í fínu standi komandi inn í tímabilið en held það hafi verið liðnar 20 mínútur af 2. umferðinni þegar ég togna. Það er þétt spilað í byrjun móts svo ég missi af næstu leikjum, slæm byrjun fyrir mig, var frá í þrjár vikur."

„Liðinu gekk alls ekki vel, enginn í raun sem spilaði vel og við náðum ekki í úrslit. Ég spila 1-2 leiki eftir meiðslin en svo fannst mér eins og hefði verið ýtt á einhvern takka, ákveðið að ég myndi bara ekki spila mikið meira."

„Ég byrjaði síðasta leikinn í fyrri umferðinni en spila svo bara einhverjar 40 mínútur spilaðar í næstu ellefu leikjum. Ég veit ekki af hverju, en það var eins og maður hefði verið tekinn út fyrir sviga og ákveðið að maður myndi ekki spila mikið meira. Það var einhver áherslubreyting eða hvað það var, ákveðið að spila einhverjum öðrum leikmönnum, eða þannig leit það allavega út. Ég fattaði það bara mjög snemma og þótti það leiðinlegt. Mér fannst ég eiga skilið að spila meira, ég er búinn að vera heill heilsu og æfa eins og vitleysingur núna í nokkra mánuði, en ekkert spilað. Mig langaði að fara um mitt sumar og fara eitthvert sem ég fengi að spila, en það gekk ekki upp. Þetta hefur verið ósköp leiðinlegt, varðandi spiltímann, í sumar."


Hefði viljað fá að sýna sig meira
Áttir þú eitthvað samtal við Hadda þjálfara?

„Við höfum alveg rætt saman og sambandið gott. Hann ákvað að veðja á aðra hesta, en ég var samt að bíða eftir að fá að koma inn. Það var ekki fyrr en í leiknum á móti KR í júlí sem mér fannst við ná að snúa genginu við, mér fannst alveg margir leikir spilaðir þar sem ekkert var að ganga en engu var breytt, þó að kannski einhverjir segi annað, en mér fannst hlutirnir ekki byrja líta vel út fyrr en eftir þann leik. Ég skil svo þá að vera ekki að breyta miklu."

„Við Haddi áttum alveg samtal og sáum kannski hlutina einhvern veginn mismunandi augum. Mixtúran í liðinu, margir eldri leikmenn, og kannski auðvelt að kippa einhverjum út. Mér fannst ég hafa orðið fyrir valinu þar."

„Ég náði engum takti út af meiðslunum í byrjun og var svo bara kippt út, smá sorgarsaga. Ég er nokkurn veginn búinn að vera bara æfingaleikmaður í sumar. Ég get ekki vælt yfir því, það er bara ákvörðun þjálfarans og ég verð að taka því, en ég hefði viljað fá að sýna mig meira því ég tel mig eiga alveg nóg eftir á tanknum."


„Get ekki beðið eftir næsta tímabili til að afsanna þetta"
Viðar virtist kominn í aukahlutverk hjá KA um mitt mót en fékk kallið í seinni leiknum gegn Silkeborg og skoraði mark sem kom KA í framlengingu á Greifavellinum. Undirritaður hugsaði hvort Viðar væri þarna að vakna. Varst þú þar líka?

„Já já, en svo var ég bara komandi inn á fjórar og fimm mínútur hér og þar. Ég átti líka stóran þátt í sigurmarki á móti ÍBV. Ég held líka að eftir að liðið fór að spila vel að ég væri búinn að skora slatta af mörkum, nákvæmlega eins og í fyrra. Það var bara eitthvað sem sagði mér að ég væri ekkert að fara koma inn í þetta. Þegar þú ert búinn að vonast eftir því að koma inn í 1-2 mánuði, þá fer bara trúin á því."

„Ég hef alltaf æft, verið fagmaður og beðið eftir mínum sénsum, en sénsinn hefur bara ekkert komið. Það var ákveðið að vera með aðra menn inni frekar en mig, ég er virkilega ósammála því að mörgu leyti, en eftir að liðið fer að spila vel þá getur maður ekki sagt neitt. Þetta er bara fótboltinn."

„Það sem ég hugsa um núna er að ég get ekki beðið eftir næsta tímabili til að afsanna þetta. Magatilfinningin í maí/júní var þannig að ég myndi ekki spila meira nema það yrðu drastískar breytingar."

„Þeir sem þekkja til vita að framherjar þurfa traust og ég var ekki að fá að spila nóg til að reyna breyta skoðun þjálfarans. Ég æfði vel, en svo þegar liðið hrekkur í gang er mjög skiljanlegt að engu sé breytt, ég skil það á þeim tímapunkti, en fyrir það fannst mér það óskiljanlegt. Maður er vanur ýmsu og veit hvernig þetta virkar, eina leiðinlega er að hafa ekki getað sýnt það á vellinum að það væri ennþá eitthvað í löppunum á manni."


Vildi fara í glugganum
Varstu nálægt því að fara í glugganum?

„Það var alveg möguleiki, ég var heill og hef verið það frá því í byrjun móts. Það var alveg reynt að skoða aðra kosti í glugganum en það gekk einhvern veginn ekki alveg upp. Ég vildi spila meira og stefni á að spila í 2-3 ár í viðbót klárlega, og ég vildi ekki missa alveg seinni hlutann af tímabilinu í ekkert. Svo þurfti ég bara að sætta mig við það sem var leiðinlegt, hefði viljað spila einhvers staðar á fullu, en það gekk ekki upp."

Alltaf klár ef kallið kemur
Þú varst ekki í hópnum í síðasta leik KA, hvernig horfir það við þér?

„Persónulega pæli ég voða lítið í því, skiptir engu máli úr þessu. Maður heldur sér bara í standi og hausinn er kominn í næsta tímabil. Það kemur mér ekkert á óvart í þessu, það er bara flott að gefa einhverjum yngri mönnum séns. Ég er ekkert að horfa í að ég spili eitthvað í lokaleikjunum tveimur, er alltaf klár ef kallið kemur, en hugurinn er kominn lengra fram í tímann en það."

Ætlar ekki að stoppa milli tímabila
Þú sérð þá bara fyrir þér að æfa með KA út október og halda svo suður?

„Já, ég mun mæta á æfingar, það er gaman á æfingum og góður andi í liðinu. Mér þykir vænt um klúbbinn og búinn að eignast marga góða vini. Ég hef alltaf reynt að hjálpa til við að halda uppi gæðum á æfingum hvar sem ég hef verið að spila og hafa gaman í klefanum. Það er búið að vera þannig núna. Það sem ég er að hugsa mest um núna er að halda mér í formi núna og þegar samningurinn rennur út fer ég beint í að æfa einhvers staðara annars staðar. Ég er búinn að vera í hálfgerðu fríi, allavega frá leikjum, þannig ég hugsa að ég stoppi ekkert milli tímabila."

Telur sig eiga nóg eftir
Ertu opinn fyrir öllu upp á framhaldið?

„Já, ég er opinn fyrir öllu. Ég er að skoða að fara taka þjálfaragráðu. Fyrir mér er ég leikmaður sem á nóg eftir, ég væri hreinskilinn með það ef ég væri eitthvað að finna til í líkamanum eða væri að verða búinn. Ég tel mig eiga nóg eftir, 100% á því að ef ég hefði náð sjálfstrausti, spilað meira, þá hefði ég getað komist í gang og skorað mörk í þessari deild. Það er ekki efi frá mér séð með það."

„Ég tel mig eiga nóg eftir, hef yfir ferilinn verið nokkuð heppinn með meiðsli, en lenti tvisvar í því að togna í ár, hef kannski verið a æfa of mikið eða vitlaust. Maður lærir af því. Mér líður eins og ég eigi góð 2-3 ár eftir og mögulega eitt lélegt,"
segir Viðar á léttu nótunum.

Umræðan um háan aldur hafði áhrif
Varðandi umræðuna um KA og háan aldur á liðinu, heldur þú að það hafi sett þig aðeins út fyrir myndina hjá þjálfaranum?

„Ég held að það hafi alveg haft áhrif, eiginlega alveg 100%. Það er líka kannski það að leikmennirnir sem voru að spila voru svolítið líkir, það þarf að stilla upp mismunandi týpum. Þegar þú ert á þessum aldri getur verið verið hentugra að vera með yngri menn í kringum þig."

„Fyrir mig er umræðan oft galin. Um leið og það fara tapast leikir þá er farið að tala um aldur, en ef leikir vinnast þá er allt frábært. Þú ert með færri líf ef þú ert á þessum aldri, ef 2-3 leikir tapast þá er strax farið að tala um það og kannski er það bara eðlilegt."

„Maður sér samt eins og með Hallgrím Mar, hann virðist bara verða betri með árunum. Þegar menn eru í góðu standi þá er aldur ekkert, en auðvitað lítur þetta betur út ef meðalaldurinn er lægri. Við vorum kannski með fullmarga yfir þrítugt í ár og þegar úrslitin voru ekki að koma þá fara menn að spyrja spurninga. Það er bara eðlilegt, en ég vil meina að ef menn spila vel, sama hversu gamlir þeir eru, þá eiga þeir bara að spila,"
segir Viðar að lokum.
Athugasemdir
banner