Rashford gerir allt til að komast til Barcelona - Lecce hafnar tilboði Man Utd - Duran til Real Madrid?
   mán 16. janúar 2023 15:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Í stóru félagi á mikilli uppleið - Gömul tenging frá Íslandi sem borgaði sig
Anna Björk Kristjánsdóttir, leikmaður ítalska stórliðsins Inter.
Anna Björk Kristjánsdóttir, leikmaður ítalska stórliðsins Inter.
Mynd: Getty Images
Á æfingu.
Á æfingu.
Mynd: Getty Images
Er á sínu öðru tímabili með félaginu.
Er á sínu öðru tímabili með félaginu.
Mynd: Getty Images
Sara Björk Gunnarsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir leika báðar á Ítalíu.
Sara Björk Gunnarsdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir leika báðar á Ítalíu.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Í leik með Selfossi sumarið 2020.
Í leik með Selfossi sumarið 2020.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stefanie van der Gragt í leik gegn Íslandi.
Stefanie van der Gragt í leik gegn Íslandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Berglind Björg og Anna Björk.
Berglind Björg og Anna Björk.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Lífið á Ítalíu hefur verið mjög gott og mér líður mjög vel hérna, bæði með liðinu og utan fótboltans," segir Anna Björk Kristjánsdóttir, varnarmaður ítalska stórliðsins Inter, í samtali við Fótbolta.net.

„Veðrið er frábært og maturinn líka. Menningin er skemmtileg. Ég er mjög sátt hérna."

Anna Björk hefur leikið nokkuð stórt hlutverk í liði Inter frá því hún gekk í raðir félagsins frá Le Havre í Frakklandi árið 2021. Inter er eitt stærsta félagið á Ítalíu en kvennalið félagsins er tiltölulega nýstofnað.

„Fótboltalega séð finnst mér þetta vera öðruvísi. Fótboltinn er svo mikið í blóðinu hjá Ítölunum. Ef fólk kemst að því að ég er leikmaður Inter þá er alltaf mikil spenna í kringum það. Þá eru allir spenntir og vilja tala um fótbolta. Að því leytinu til finnst mér stemningin vera öðruvísi en þar sem ég hef spilað áður. Ítalinn hefur gríðarlega ástríðu fyrir fótbolta og maður tekur eftir því."

„Það er gaman að taka þátt í því og vera í þannig umhverfi. Maður finnur stoltið," segir Anna Björk.

Mjög spennandi að heyra af áhuganum frá Inter
Líkt og fyrr segir er Inter gríðarlega stórt félag, en hvernig var að heyra frá áhuga þaðan?

„Það var mjög spennandi. Þetta er stórt félag. Ég vissi að Rita (Guarino) sem var þjálfari hjá Juventus væri komin hingað til Inter. Mér fannst það mjög heillandi því ég vissi að hún myndi aldrei fara til félags nema það væri metnaður fyrir kvennabolta þar. Það gerði það enn meira spennandi fyrir mig. Ég vissi að ég væri þá að fara í lið sem vildi gera vel fyrir kvennaboltann."

Það hefur ekki alltaf verið dans á rósum fyrir íslenska leikmenn að spila á Ítalíu en landslagið þar virðist vera að breytast til hins betra.

„Maður hefur heyrt ýmislegt með Ítalíu en það er mismunandi á milli félaga. Það hefur líka breyst mikið milli ára. Ég var mjög spennt um leið og ég heyrði af áhuga hjá Inter. Ég var ákveðin í því að þetta yrði gott skref fyrir mig."

Kom til í gegnum ítalskan samherja frá Stjörnunni
Anna Björk heyrðist fyrst af áhuga frá Inter í gegnum Mörtu Carissimi, fyrrum landsliðskonu Ítalíu. Carissimi, sem er jafnframt fyrrum leikmaður Inter, lék með Stjörnunni sumarið 2014 og var þar liðsfélagi Önnu.

„Hún hafði tengsl til Inter og heyrði fyrst í mér með það hvort ég hefði áhuga á að skoða þetta. Þau voru að leita að hafsent og hún þekkti mig, vissi hvernig leikmaður ég væri. Út frá því fór boltinn að rúlla," segir Anna Björk.

„Hún spilaði með okkur í eitt ár í Stjörnunni. Hún er mjög skemmtilegur karakter. Við vorum miklar vinkonur þegar hún spilaði með okkur og höfum haldið sambandi í gegnum árin. Hún kom vel inn í liðið og maður hélt alltaf sambandi við hana. Það skilaði sér mörgum árum seinna sem er ekki leiðinlegt."

„Mér finnst hún vera lýsandi fyrir Ítala, skemmtileg og hress. Hún kom með mikla ástríðu inn í liðið okkar. Við vorum að spila í Meistaradeildinni og hún bjó til sínar eigin auglýsingar og vildi fara að dreifa þeim í Smáralind til að fá fólk á völlinn. Ég myndi segja að við Íslendingar séum með mikla ástríðu en hún kom með eitthvað aukalega. Hún er mjög skemmtilegur karakter."

Mjög skemmtilegt að vera hluti af þessum uppgangi
Kvennalið Inter var stofnað 2018 og hafði liðið endað í áttunda sæti tímabilið áður en íslenski miðvörðurinn kom til félagsins. Núna er Inter í þriðja sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar, aðeins þremur stigum frá Juventus sem er í öðru sæti.

„Það er búið að vera mjög skemmtilegt að vera hluti af þessum uppgangi. Þetta er eins og ég var að vonast til þess að þetta yrði," segir Anna Björk.

„Þjálfarinn hafði staðið sig hjá vel hjá Juventus, en hún þurfti að sanna sig í nýju starfi. Það sýnir karakterinn hjá henni og hvernig hún nálgast hlutverkið - hvert hún er búin að taka Inter þegar hún er á öðru tímabili sínu. Það er gaman að vera partur af þessu. Frá tímabilinu í fyrra og núna þá finnur maður að það er munur á því hvernig Inter er að nálgast hlutina. Maður sér skrefin sem félagið er að taka inn á vellinum og utan hans. Við erum sýnilegar og það er margt gert fyrir okkur, manni líður eins og maður sé partur af félaginu. Það skilar sér í úrslitum."

„Það er virkilega gaman að taka þátt í þessu með svona stóru félagi; það er metnaður og ástríða hérna, það er vel hugsað um hlutina."

Ítalska úrvalsdeildin er einnig að vaxa. Núna eru þrír Íslendingar að spila í deildinni; Alexandra Jóhannsdóttir leikur með Fiorentina, Guðný Árnadóttir með AC Milan og Sara Björk Gunnarsdóttir er hjá Juventus.

„Mér líður vel hérna. Ég væri til í að vera nokkrum árum yngri og taka skrefið hérna fyrr. Þetta er mjög góður staður og það sést á því hversu margir Íslendingar eru að taka skrefið í deildina. Ég gæti séð fyrir mér að vera hérna lengi. Það er ekkert til að kvarta yfir."

„Það er mjög gaman að mæta Íslendingunum og gott að hitta þær. Það er alltaf aðeins öðruvísi stemning þegar maður mætir þeim. Þær eru í toppliðum og þetta eru alltaf skemmtilegir leikir. Það er gaman að fá fleiri Íslendinga hérna."

Spilar við hlið hollenskrar landsliðskonu
Anna Björk, sem er 33 ára, hefur spilað flesta leiki liðsins á tímabilinu. Við hlið hennar leikur oftast hollenski landsliðsmiðvörðurinn Stefanie van der Gragt. Anna segir að það sé mjög fínt að spila með henni.

„Það er mjög gott að spila með henni. Maður fann frá fyrstu æfingu að hún er góður karakter, engir stælar eða hroki í henni þó hún eigi alveg efni á því. Maður finnur hvað hún er mikill sigurvegari. Hún er vön að vinna titla og það er mjög gott fyrir Ítalana að fá þennan karakter inn - og okkur allar," segir Anna Björk en Van der Gragt hefur á sínum ferli leikið með félögum á borð við Bayern München, Ajax og Barcelona.

„Það er mjög gott að spila með henni, hún er öruggur hafsent og er reynslumikil. Við náum mjög vel saman. Maður finnur alltaf ákveðin tengsl þegar maður spilar með sama hafsenti í ákveðinn tíma og þegar maður þarf ekki að hugsa er maður spilar með þeim þá segir það mikið. Það er gott flæði á milli okkar."

„Ég er mjög sátt með mitt hlutverk. Það er mikil samkeppni í liðinu, holl og heilbrigð samkeppni. Við erum góðar vinkonur og styðjum hvor aðra, sem er alls ekki sjálfgefið. Það er mjög góð stemning og ég er mjög sátt með stöðu mína. Ég finn mikið traust frá þjálfaranum. Liðið hentar mér vel og styrkleikar mínir nýtast vel. Ég hef líka verið á bekknum en ég veit að ég verð ekki þar lengi. Ég finn traustið frá þjálfaranum. Ég nýt þess að spila þegar ég fæ mínútur og ég er mjög sátt með mitt tímabil og mitt hlutverk."

Með góða upplifun frá bæði Frakklandi og Ítalíu
Áður en Anna fór til Inter þá lék hún með Le Havre í Frakklandi. Það virðist ekki vera sérstaklega árangursríkt fyrir íslenska leikmenn að fara til Frakklands en miðvörðurinn öflugi segist hafa notið tímans vel þar.

„Ég held að ég og Berglind höfum verið mjög heppnar í Le Havre," segir Anna Björk.

„Ég hef líka talað við vinkonu mína hér sem hefur spilað í Frakklandi og maður heyrir að franska menningin sé erfið. Ég og Berglind vorum heppnar með okkar lið. Við spiluðum alla leiki. Ég get ekki sagt hvernig þetta er fyrir aðra leikmenn en fyrir mér var þetta allt annað. Mér leið mjög vel í Frakklandi og í liðinu mínu. Ég held að franska deildin sé mjög góð og erfið, en ég var mjög sátt í Frakklandi."

Hvort myndi hún frekar ráðleggja leikmönnum að fara til Frakklands eða Ítalíu?

„Það fer mikið eftir því hvaða lið það væri og hvernig aðstæður væru. Það er mikið sem þarf að skoða. Maður þarf að fylgja sinni tilfinningu og gera það sem manni líður best með. Ég er með mjög góða upplifun frá bæði Frakklandi og Ítalíu. Maður þarf bara að spyrja og tala við fólk. Svo á maður að gera það sem maður er sáttastur með og standa við sína ákvörðun," sagði Anna Björk sem spilaði allan leikinn í 4-0 sigri Inter gegn Sampdoria um liðna helgi.

Spennandi verkefni framundan í þessum mánuði
Framundan í þessum mánuði - eftir tæpar tvær vikur - er mjög svo spennandi verkefni fyrir Inter er liðið mætir AC Milan í nágrannaslag, og sömuleiðis Íslendingaslag. Verður fróðlegt að sjá hvernig sá leikur fer en bæði lið eru með mikinn metnað.

„Markmiðið hjá Inter er að taka skref fram á við á hverju ári, gera betur en í fyrra. Við erum að einbeita okkur að því að vera með toppliðunum, sýna stöðugleika sem topplið. Við erum að mæta í hvern leik með það að markmiðið að bæta okkur. Við viljum komast á þann stað sem Juventus hefur verið á. Það eru fleiri félög í keppni við Juventus og það gerir þessa deild skemmtilegri. Aðalmarkmiðið er að gera betur en í fyrra," sagði miðvörðurinn öflugi en það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig ítalski kvennaboltinn og stóru félögin þar munu halda áfram að þróast á næstu árum.
Athugasemdir
banner
banner
banner