Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   lau 24. febrúar 2018 14:52
Orri Rafn Sigurðarson
Draumurinn sem varð að martröð
Arna Sif og Berglind loksins lausar frá Verona
Berglind Björg og Arna Sif fyrir EM 2017.
Berglind Björg og Arna Sif fyrir EM 2017.
Mynd: Einkasafn
Berglind Björg í leik með Breiðablik síðastliðið sumar.
Berglind Björg í leik með Breiðablik síðastliðið sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arna Sif í leik gegn uppeldisfélagi sínu Þór/KA.
Arna Sif í leik gegn uppeldisfélagi sínu Þór/KA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd tekin á Laugardalsvelli eftir landsleik árið 2015.
Mynd tekin á Laugardalsvelli eftir landsleik árið 2015.
Mynd: Einkasafn
Allir ungir knattspyrnuiðkendur hafa sama drauminn, að gerast atvinnumaður í knattspyrnu.

Vinkonurnar, þær Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Arna Sif Ásgrímsdóttir eru engin undantekning þar á, en í haust fengu þær tækifærið til að upplifa drauminn sinn saman; drauminn sem þær höfðu dreymt saman um frá því þær kynntust í verkefni með U17 ára landsliðinu. Liðið var Verona á Ítalíu.

En það sem átti að verða spennandi ævintýri og nýr kafli á ferlinum snérist fljótlega úr draumi í martröð og við tóku erfiðir mánuðir hjá vinkonunum á Ítalíu.

Þær hafa nú rift samningum sínum við ítalska liðið en það tók nokkra mánuði að fá það í gegn.

Sjá eining:
Deila Berglindar og Örnu til FIFA

Vildi ekki að leikmenn brostu á æfingum
Verona braut trekk í trekk á þeirra samningnum, launin voru ekki greidd á réttum tíma og fyrstu vikurnar bjuggu þær í lítilli íbúð með fjórum öðrum leikmönnum þar sem þær deildu rúmi. Einn samherji þeirra svaf frammi á gangi. Vandræði voru með hitann í íbúðinni og í þokkabót lak hún.

Þjálfarinn var hrokafullur, vildi ekki að leikmenn brostu á æfingum og nánast lék sér að því að niðurlægja leikmenn sína þar sem hann hélt myndbandsfundi til þess eins að benda á einstaklingsmistök og gera lítið úr leikmanninum.

„Það var alltaf sagt við okkur að hlutirnir tæku tvo, þrjá daga, fyrst að fá húsgögn í íbúðina og svo eyddum við hátt í 30-40 þúsund krónum í 3G í símanum því að wifi-ið yrði klárt eftir tvo eða þrjá daga, en það varð aldrei neitt úr því. Við vorum báðar í fjarnámi þar sem námið fer einungis fram á netinu," segir Arna Sif.

„Voru komnar með leyfi til þess að taka prófin heima"
Stelpurnar voru komnar með leyfi frá félaginu til þess að fara heim til Íslands í desember og taka prófin í háskólanum.

„Þegar það kom að því að panta flug heim þá sögðust þeir ekkert kannast við að hafa samþykkt þetta - komu alveg af fjöllum, meira að segja eftir að við sýndum þeim tölvupóstana þar sem þetta var samþykkt," segir Arna Sif en Berglind bætir við:

„Þeir senda tölvupóst á háskólann okkar og biðja þá um að segja við okkur að við ættum að taka prófin á Ítalíu, en það var alltaf samið um að við ætluðum heim í prófin. Þeir samþykktu það í byrjun, en tóku það svo ekki í mál. Þeir senda okkur svo skilaboð rétt áður en við eigum að fara til Íslands og segja okkur að við þurfum að mæta á fund og útskýra mál okkar fyrir framan stjórnina og af hverju við þurfum að fara heim í prófin."

„Ekki ævintýrið sem við ætluðum í"
En hvernig upplifa stelpurnar þessa reynslu á Ítalíu? Var hún öðruvísi en þær bjuggust við?

„Við bjuggumst ekki við þessu," segir Berglind Björg.

„Við héldum að Ítalski boltinn væri kominn lengra en þetta, en þetta fer í reynslubankann. Ég sé alls ekki eftir að hafa farið og prófað þetta, það er bara leiðinlegt hversu slæm reynsla þetta var, en þetta styrkir mann. Við kynntumst frábæru fólki og áttum fullt af góðum stundum þarna en við fórum fyrst og fremst til að bæta okkar leik og verða betri í fótbolta," segir Berglind jafnframt.

Arna tekur undir þetta hjá Berglindi.

„Þetta var ekki ævintýrið sem við ætluðum í. Ég bjóst alls ekki við þessu. Ég hélt að fótboltinn væri kominn lengra og klúbburinn almennt væri kominn lengra og kæmi ekki svona fram við leikmennina sína. En það er ekki hægt að alhæfa atvinnumennskuna út frá þessu, ég var í Svíþjóð árið 2015 og hef ekkert nema gott um það að segja."

Arna fór sjálf til Gautaborgar í Svíþjóð árið 2015 en sá tími var allt annar öðruvísi en sá sem hún eyddi hjá Verona.

„Hefði verið mjög erfitt að ganga í gegnum þetta ein"
Eins og áður segir voru þetta vinkonur, bestu vinkonur að upplifa drauminn sinn saman. Hjálpaði það þeim að ganga í gegnum það sem gekk á þarna úti og þurfa ekki að ganga í gegnum það einar?

Guð minn góður, já! segir Berglind. „Það hefði verið mjög erfitt að ganga í gegnum þetta ein. Í byrjun þá vorum við í sjokki og áttum mjög erfitt á tímabili, en við ákváðum svo bara að reyna hlægja að þessari vitleysu og það er hægt að segja að það hafi bjargað geðheilsunni."

Arna er sammála og segir:

„Ég get ekki ímyndað mér hvernig þetta hefði verið ef ég hefði verið ein. Það er gott að hafa hvor aðra og geta pústað aðeins og hlegið af af þessari vitleysu."

Berglind mun spila með Breiðablik í sumar á meðan Arna Sif fer aftur til uppeldisfélagsins á Akureyri og spilar með Íslandsmeisturum Þórs/KA eftir þriggja ára fjarveru.

„Ég er byrjuð að æfa á fullu með Breiðablik og vinna upp þessa mánuði sem maður missti af. Það er búið að taka gríðarlega á að sitja á hliðarlínunni og horfa á þær spila en núna getur maður farið að æfa á fullu og koma sér í gott stand fyrir átökin í sumar," segir Berglind sem raðaði inn mörkum með Blikum síðasta sumar.

„Ég er flutt heim til Akureyrar og ætla að spila með Þór/KA næstu tvö árin hið minnsta. Ég er mjög ánægð með að vera komin heim eftir tvö frábær ár með Val. Mér finnst ég eiga mikið inni og langaði að koma heim og finna mig aðeins. Þannig að framundan er bara að æfa vel, komast inn í allt hér og undirbúa sig vel fyrir komandi tímabil," segir Arna sem er greinilega spennt fyrir endurkomunni norður.

Þrátt fyrir að ævintýrið hafi ekki farið sem skyldi hafa stelpurnar sýnt mikinn karakter og fagmennsku í sínum aðgerðum gegn Verona. Þær komu báðar heim í byrjun desember og hafa ekki mátt æfa né spila með öðru liði á meðan sem hefur tekið mjög á andlegu hliðina.

Núna er sagan önnur og hafa þær náð að rifta samningum sínum við Verona og við tekur spennandi tímabil og verkefni heima á Íslandi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner