Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   mið 16. febrúar 2022 13:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viktor fær rosalega athygli - Sá fjölhæfasti í öllum heiminum?
Viktor Örlygur Andrason.
Viktor Örlygur Andrason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Svona er prófill Viktors í leiknum vinsæla.
Svona er prófill Viktors í leiknum vinsæla.
Mynd: Football Manager
Getur líka spilað í markinu ef þörf er á því.
Getur líka spilað í markinu ef þörf er á því.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Hann er, tæknilega séð, einn af okkur betri leikmönnum sem eru að spila á Íslandi og þótt víðar væri leitað'
'Hann er, tæknilega séð, einn af okkur betri leikmönnum sem eru að spila á Íslandi og þótt víðar væri leitað'
Mynd: KSÍ
Viktor Örlygur Andrason, miðjumaður Íslands- og bikarmeistara Víkings, hefur fengið gífurlega mikla athygli á samfélagsmiðlinum Twitter undanfarinn sólarhring eða svo.

Viktor virðist nefnilega vera fjölhæfasti fótboltamaður í öllum heiminum, allavega ef marka má tölvuleikinn Football Manager.

Í leiknum - sem er mjög vinsæll - setur tölvuleikjaspilarinn sig í spor knattspyrnustjóra í hinum stóra heimi fótboltans. Leikurinn er mjög ítarlegur og kafað er djúpt ofan í hlutina. Tvær efstu deildir karla á Íslandi eru í leiknum og má finna leikmenn þeirra liða sem þar eru.

Í gær myndaðist umræða á Twitter - hjá Football Manager samfélaginu ef það má nefna það svo - um fjölhæfa fótboltamenn. Benti einn aðili á Viktor Örlyg og hvernig hann kemur fyrir í leiknum. Fékk það strax mikla athygli því Viktor getur spilað allar stöður í leiknum, nema markvörð; hann er bestur á miðsvæðinu, en getur leyst allar aðrar stöður á vellinum.

Þetta er mjög merkilegt og ekki margir aðrir leikmenn - ef einhver - í leiknum sem eru með þennan eiginleika.

Viktor tók sjálfur þátt í umræðunni á Twitter og hefur hann - þegar þessi frétt er skrifuð - fengið meira en tíu þúsund 'læk' á færslu sína. Það eru ótrúlegar tölur og ljóst að þetta er að vekja mikla athygli út í heimi.

Getur líka leyst stöðu markvarðar
Samkvæmt Football Manager, þá er markvarðarstaðan sú eina sem Viktor getur ekki leyst almennilega. Það er ekki satt, því miðjumaðurinn leysti þá stöðu í yngri flokkum og er hann sá útileikmaður sem færi eflaust fyrst í markið hjá Víkingum ef það væri nauðsynlegt.

Árið 2020 voru Víkingar ekki með neinn varamarkvörð á ákveðnum tímapunkti. Þá lýsti Þórður Ingason, markvörður liðsins, því yfir að Viktor væri varamarkvörðurinn. Hann sagði það í samtali við Morgunblaðið.

„Já ef sú staða hefði komið upp að ég hefði farið út af [vegna meiðsla eða brott­vís­un­ar] þá hefði Vikt­or Örlyg­ur Andra­son farið í markið. Hann er flott­ur á milli stang­anna og seig­ur þótt hann sé kannski ekki dóm­iner­andi í teign­um," sagði Þórður.

Umræðan um Viktor er orðin það stór að opinber Twitter-reikningur Football Manager blandaði sér í hana. „Viktor, settu hanskana aftur á þig og þá munum við tala saman." Aldrei að vita nema prófíll Viktors í leiknum verði uppfærður þannig að hann geti einnig leyst markvarðarstöðuna, ásamt öllum hinum stöðunum á vellinum.

Vanmetinn í árangrinum frábæra
Það má með sanni segja að Viktor sé vanmetinn í þeim frábæra árangri sem Víkingur hefur náð undanfarin ár. Hann hefur spilað stóra rullu í liðinu og er í miklum metum hjá þjálfaranum Arnari Gunnlaugssyni.

„Hann er, tæknilega séð, einn af okkur betri leikmönnum sem eru að spila á Íslandi og þótt víðar væri leitað," sagði Arnar í viðtali fyrr á þessu ári - þegar hann var spurður út í Viktor.

„Svo hefur verið tilhneiging, sem gerist hjá góðum leikmönnum, að þegar hann gerir ein mistök þá vill hann gera eitthvað stórkostlegt í næst. Það endar stundum í katastrófu. Með aldrinum og reynslunni er Viktor búinn að læra inn á sinn leik. Hvað varðar hæfileika þá hafa fáir hæfileika á borð við Viktor Örlyg."

Þessi öflugi leikmaður spilaði sína fyrstu A-landsleiki í síðasta mánuði. Hann stefnir á það að komast út í atvinnumennsku á næstunni.

Það eru sögur um að félög hér og þar noti gagnagrunn Football Manager - sem er mjög ítarlegur - sem hjálpartæki við að finna leikmenn til að semja við; leikmenn sem eru þá skoðaðir nánar. Það er því alls ekki útilokað að þetta allt saman muni eitthvað hjálpa Viktori að ná markmiði sínu.




Athugasemdir
banner
banner
banner