Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   lau 15. janúar 2022 18:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Góð reynsla og núna hefst vinnan aftur - „Ekki alveg laus við þá"
Icelandair
Viktor Örlygur Andrason.
Viktor Örlygur Andrason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á landsliðsæfingu.
Á landsliðsæfingu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári Árnason og Sölvi Geir Ottesen.
Kári Árnason og Sölvi Geir Ottesen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Miðjumaðurinn Viktor Örlygur Andrason lék sinn annan landsleik í dag þegar Ísland tapaði 5-1 gegn Suður-Kóreu í vináttulandsleik í Tyrklandi.

Lestu um leikinn: Ísland 1 -  5 Suður-Kórea

Fyrsta landsleikinn spilaði hann fyrr í vikunni þegar liðið gerði jafntefli gegn Úganda. Viktor, sem kom inn af bekknum í dag, spjallaði við fréttamenn að leik loknum. Leikurinn var mjög erfiður.

„Þeir voru mjög góðir og spiluðu vel. Færslurnar hjá þeim voru nánast allar réttar. Við áttum í vandræðum með að stýra þeim, bæði varnarlega og svo náðum við ekki að halda boltanum nægilega mikið. Það lagaðist í seinni þegar við þorðum að byggja uppspilið aðeins betur og tókum fleiri réttar ákvarðanir í varnarleiknum," sagði Viktor.

Mjög góð reynsla
Viktor segir að þessir dagar með landsliðinu hafi verið mjög góð reynsla fyrir sig persónulega.

„Þetta er mjög góð reynsla fyrir mig og skemmtilegt að prófa sig á þessu stigi. Það er mikill heiður að fá tækifærið. Þetta er góð tilbreyting frá félagsliðinu, enn meiri taktískar pælingar. Það eru mikil gæði hérna og þetta hefur verið mjög gaman."

„Við spilum meiri varnarleik með landsliðinu og þurfum að taka fleiri færslur varnarlega. Það er aðeins meiri hraði hérna en heima og betri leikmenn. Leikmenn Suður-Kóreu voru allir mjög góðir," sagði Viktor.

Stefnir á að komast erlendis
Eins og flestir íslenskir fótboltamenn, þá stefnir Viktor á það að komast að erlendis, hvort sem það er á þessu ári eða á því næsta. Þetta var góður gluggi fyrir hann til að sýna sig.

„Þetta var góður gluggi til að sýna sig og máta sig við leikmenn sem eru að spila í betri deildum en heima. Þetta er klárlega gluggi sem ég vonandi nýtti mér ágætlega."

„Þetta er markmið hjá mér yfir næsta árið, hvort sem það gerist á næstunni eða eftir tímabilið núna. Það kemur í ljós. Markmiðið er að fara út og spila í betri deild; sjá hversu langt maður kemst."

Síðasta tímabil magnað
„Maður er hægt og rólega að ná sér niður og komast í gírinn fyrir undirbúningstímbilið og nýtt tímabil," segir Viktor þegar hann er spurður út í síðasta tímabil með Víkingum þegar liðið varð bæði Íslands- og bikarmeistari.

Hvernig verður það að koma sér í gang fyrir næsta tímabil eftir það sem gerðist á síðustu leiktíð. „Núna byrjar ný vinna fyrir nýtt tímabil sem verður vonandi skemmtilegt líka. Miðað við hvernig þetta hefur verið, þá eru menn vel stemmdir. Liðin eru að gefa í. Ég held að menn séu tilbúnir að leggja allt í næsta tímabil."

Kári Árnason og Sölvi Geir Ottesen, sem voru lykilmenn í hópnum á síðustu leiktíð, eru báðir búnir að leggja skóna á hilluna.

„Þetta eru stór skörð að fylla í. En þeir eru duglegir að kíkja við og minna á sig. Maður er ekki alveg laus við þá," sagði Viktor léttur.

Gengur sáttur frá borði
Miðjumaðurinn var að lokum spurður að því hvernig hann teldi sig hafa komist frá þessu verkefni.

„Ég er mjög sáttur með mína spilamennsku. Mér finnst ég hafa gert góða hluti inn á vellinum, bæði í hlutum sem ég er góður í og þarf að bæta. Þetta er aðeins öðruvísi en félagslið, betri andstæðingar og þér er refsað fyrir minni mistök. Ég er allavega sáttur," sagði Viktor.
Athugasemdir
banner
banner
banner