banner
   fim 16. september 2021 12:20
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Helgi Sig: Auðvitað er það skrítið
Fjölskyldan er það mikilvægasta í lífinu
Lengjudeildin
Ánægður með árangurinn.
Ánægður með árangurinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍBV er komið upp í efstu deild!
ÍBV er komið upp í efstu deild!
Mynd: Raggi Óla
Mynd: Raggi Óla
Í gær var tilkynnt að Helgi Sigurðsson yrði ekki áfram þjálfari ÍBV eftir tveggja ára starf í Vestmannaeyjum. Tíðindin koma mörgum á óvart en ÍBV er nýbúið að tryggja sér sæti í efstu deild eftir tvö tímabil í Lengjudeildinni.

Fótbolti.net heyrði í Helga í dag og spurði hann út í tíðindi gærdagsins.

Fjölskyldan það mikilvægasta í lífinu
„Aðdragandinn er bara þannig að síðan ég kom til ÍBV þá hafa aðstæður í fjölskyldulífinu breyst sem hafa gert það að verkum að það hefur verið æ erfiðara fyrir mig að geta sinnt þessu starfi eins og ég vil sinna því. Það voru forsendur sem breyttust og því ákvað ég að segja þetta gott," sagði Helgi við Fótbolta.net í dag.

„Að enda þetta á þessum nótum, að klára dæmið og koma ÍBV í deild þeirra bestu, var frábært. Það var alltaf hugur minn að gera það síðan ég kom til félagsins og auðvitað stóð til að klára þessi þrjú ár en svo komu upp hlutir hjá fjölskyldunni, þ.e.a.s. varðandi vinnu hjá konunni. Það er bara hlutur sem breytist og fjölskyldan er það mikilvægasta í lífinu. Maður verður að taka tillit til þess og því fór sem fór. Það er engin meiri dramatík á bakvið þetta en fjölskylduaðstæður."

Auðvitað það skrítið
Svekkjandi að geta ekki tekið slaginn með ÍBV í efstu deild?

„Auðvitað er það það, að vera búinn að berjast fyrir þessu í tvö ár að komast ÍBV upp í efstu deild og hverfa svo frá borði. Auðvitað er það skrítið, það er ekki það sem maður ætlaði sér en maður trúir því og treystir því að ÍBV muni halda áfram sinni vegferð og gera frábæra hluti á næsta ári. Það er allt til alls í eyjum og mér hefur liðið mjög vel þar. Það eru frábærir leikmenn, stjórn og stuðningsmenn, það er allt til alls þarna.

„Það hlýjar manni aðeins að hafa skilað þessu verki af sér, að hafa komið ÍBV á betri stað en það var áður en ég kem til félagsins."


Tók ákvörðun þegar ÍBV var komið upp
Þetta virðist gerast mjög skyndilega, breyttust fjölskylduaðstæður hratt?

„Nei, svo sem ekki skyndilega. Það er einhver smá aðdragandi hjá fjölskyldunni og svo er maður bara að meðtaka þessar breytingar, svo tekur maður ákvörðun og um leið og ég þóttist vera viss um að ÍBV myndi klára verkefnið þá lét ég stjórnina vita af þessu. Þeir skildu alveg mína afstöðu og menn skildust bara að í mesta bróðerni."

„Ég á þrjú börn, var að verða afi í gær og það er ýmislegt búið að breytast. Ég vildi vera nær fjölskyldunni."


Erfið stund í klefanum í gær
Hvernig var að segja hópnum þetta í gær?

„Auðvitað er þetta alltaf erfitt og örugglega ekki það sem flestir bjuggust við því eðlilegast er að þjálfari sem kemur liði upp haldi áfram á þeirri vegferð. Það er engin launung að í hinum fullkomna heimi hefði maður viljað halda áfram með ÍBV, klára þetta verkefni og gera frábæra hluti með liðið á næstu árum í efstu deild. Auðvitað var þetta erfið stund í klefanum í gær."

„Leikmennirnir tóku þessu bara fagmannlega, við ætlum bara að klára mótið með sæmd, taka þau sex stig sem eru í boði. Þetta er hluti af fótboltanum, leikmenn og þjálfarar hverfa frá en lífið heldur alltaf áfram."


Ekki hættur þjálfun
Hvað tekur við í framhaldinu hjá þér persónulega?

„Ég er í þjálfun af líf og sál, er búinn að vera í þessu í fimm ár, bæði hjá Fylki og ÍBV. Ég tel að það hafi gengið rosalega vel, ég hef skilað báðum félögunum á betri stalli áður en ég tók við, komist tvisvar upp úr Lengjudeild og haldið Fylki í góðri stöðu í efstu deild. Auðvitað er hugur minn alltaf í þjálfuninni ef eitthvað spenanndi kemur upp, það er ekki spurning. Ég er ekkert hættur þjálfun en það þarf þá að vera einhvers staðar nálægt höfuðborgarsvæðinu."

Er eitthvað í hendi?

„Nei, það er ekkert í hendi."

Ekki fengið það credit sem þeir eiga skilið
„Nú er bara að klára þetta vel með ÍBV, næstu tvo leiki og það væri frábært ef við myndum skila liðinu í fimmtíu stigum. Það er eitthvað sem lið ná ekki á hverju ári. Þó að Fram hafi átt frábært tímabil í ár þá má ekki gleyma því að við höfum átt það líka. Eftir þessa erfiðu byrjun að klára takmarkið þegar tvær umferðir eru eftir af mótinu er alveg ótrúlegt og kannski hafa leikmenn og félagið ekki fengið það credit sem þeir hafa átt skilið í sumar."

„Auðvitað má að einhverju leyti kenna frábæru gengi Fram um, þeir hafa tekið fyrirsagnirnar. Alveg ótrúlegt ár að baki hjá þeim og ég óska þeim til hamingju með frábæran árangur. Ég hefði viljað sjá ÍBV fá aðeins meira credit í sumar fyrir þá hluti sem þeir hafa gert,"
sagði Helgi að lokum.
Athugasemdir
banner
banner