Segist ekki hafa mætt ölvaður til Ítalíu
„Þetta voru mistök og barnalegt hjá mér að gera þetta. Ég ætla ekki að láta þetta koma fyrir aftur," sagði Viðar Örn Kjartansson, framherji íslenska landsliðsins og Maccabi Tel Aviv, í viðtali við Fótbolta.net í dag.
Viðar mætti ölvaður í flug frá Ísrael til Ítalíu þegar hann var á leið í æfingabúðir með íslenska landsliðinu fyrir leikinn gegn Króatíu í nóvember. Á sama flugvelli var meðal annars íslenska U17 ára landsliðið en það var að keppa í undankeppni EM í Ísrael.
Viðar mætti ölvaður í flug frá Ísrael til Ítalíu þegar hann var á leið í æfingabúðir með íslenska landsliðinu fyrir leikinn gegn Króatíu í nóvember. Á sama flugvelli var meðal annars íslenska U17 ára landsliðið en það var að keppa í undankeppni EM í Ísrael.
„Ég átti leik mjög seint á sunnudegi og átti að vera mættur á flugvöllinn klukkan 3 um nóttina. Vinir mínir voru í heimsókn og við fengum okkur örfáa bjóra eftir leikinn. Við mættum á flugvöllinn undir smá áhrifum og þar liggja mistökin hjá mér."
„Þarna voru 12 tímar mætingu hjá landsliðinu og ég var löngu hættur að drekka áður en ég mætti til móts við landsliðið. Það stendur í fyrirsögn að ég hafi mætt ölvaður til Ítalíu og það er rangt. Það er hins vegar barnalegt og mistök hjá mér að fá mér nokkra drykki rétt áður en ég er að mæta í mjög mikilvægan leik með landsliðinu."
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, staðfesti á fréttamannafundi í dag að hann hefði rætt við Viðar um málið.
„Ég talaði við Heimi um að mér þætti þetta mjög leiðinlegt og baðst innilegrar afsökunar. Ég sagði við hann að þetta myndi ekki koma fyrir aftur."
„Menn gera mistök og ætlun mín var ekki að vera kærulaus á þessum tímapunkti. Mistökin eru mín og ég þarf að biðjast afsökunar og láta þetta ekki koma fyrir aftur."
Viðar er í landsliðshópnum fyrir leikinn gegn Kosóvó í næstu viku en hann hefur farið á kostum með Maccabi Tel Aviv undanfarnar vikur og skorað níu mörk frá áramótum. Alfreð Finnbogason og Kolbeinn Sigþórsson eru báðir fjarri góðu gamni gegn Kosóvó og Viðar vonast eftir tækifæri í byrjunarliðinu.
„Maður vonast alltaf til að fá tækifæri. Ég er í toppstandi núna og hlakka mikið til að hitta hópinn og einbeita mér að leiknum við Kosóvó," sagði Viðar að lokum.
Sjá meira:
Sjáðu þegar Kolbeinn Tumi spurði í heimi út í ölvun Viðars
Heimir ræddi við Viðar um áfengisneyslu
Ölvun Viðars hafði mögulega áhrif á liðsvalið í Króatíu
Athugasemdir