Hinrik Harðarson gekk á sunnudag í raðir norska félagsins Odd eftir rúmt ár hjá ÍA. Norska félagið keypti U21 landsliðsmanninn sem spilar á komandi tímabili í næst efstu deild Noregs.
Hinrik er sóknarmaður sem vakti athygli með Þrótti tímabilið 2023 og valdi í kjölfarið að ganga í raðir ÍA en fleiri félög höfðu áhuga. Fótbolti.net ræddi í gær við Jón Þór Hauksson, þjálfara ÍA, um Hinrik.
Hinrik er sóknarmaður sem vakti athygli með Þrótti tímabilið 2023 og valdi í kjölfarið að ganga í raðir ÍA en fleiri félög höfðu áhuga. Fótbolti.net ræddi í gær við Jón Þór Hauksson, þjálfara ÍA, um Hinrik.
„Mér fannst þróunin á honum alveg geggjuð, ég fann á honum síðustu vikur og mánuði að hann væri að taka eitthvað flug. Hann var búinn að taka jafnt og þétt mikið stökk hjá okkur frá því að hann kom," sagði Jón Þór.
„Hann spilaði auðvitað sína fyrstu leiki í efstu deild síðasta sumar og við áttum von á honum ennþá sterkari í sumar. Hann sýndi það hjá okkur í vetur að hann var svo sannarlega tilbúinn í það."
Hinrik og Viktor Jónsson spiluðu mikið saman í fremstu línu. Hvernig fannst þér þeirra samvinna?
,Hún varð alltaf betri og betri eftir því sem leið á tímabilið í fyrra. Þeir náðu virkilega vel saman og pössuðu að mörgu leyti mjög vel saman, náðu að magna upp styrkleika hvors annars. Þeir mynduðu frábært framherjapar fyrir okkur síðasta sumar, smellpössuðu saman."
Viktor varð markakóngur deildarinnar og Hinrik skoraði sjö mörk og lagði upp fimm.
„Mér fannst Hinrik vera að taka annað skref í vetur, veturinn var virkilega góður hjá honum. Það var mikill stígandi og eftir að við hófum undirbúningstímabilið af krafti og alvöru eftir áramót, þá fann maður á honum að hann væri að taka eitthvað flug."
„Það er frábært að vinna með Hinriki, hann leggur mikið á sig og hugsar mjög vel um sig. Hann er mjög kappsamur og hrikalega skemmtilegur leikmaður að vinna með. Hann á þetta svo sannarlega skilið. Við óskum honum til hamingju og óskum honum góðs gengis. Við hlökkum til að fylgjast með honum, ég er virkilega spenntur fyrir tímabilinu hjá honum."
Jón Þór fylgdist með Hinriki hjá Þrótti. Átti hann von á honum svona góðum með ÍA?
„Hann kom mér ekki á óvart. Auðvitað var þetta hans fyrsta tímabil í efstu deild, en ég hafði spilað á móti honum með Vestraliðinu og ég hafði fylgst með honum á æfingum með Þrótti þar sem við í Vestra vorum með leikmenn sem æfðu með Þrótti um veturinn. Ég þekkti því örlítið til hans, hafði mikla trú á því að þessi strákur gæti náð langt. Ég hafði allan tímann mikla trú á því að hann myndi gera góða hluti fyrir okkur í fyrra. Þannig lagað kom hann mér því ekki á óvart, en það var auðvitað mjög ánægjulegt að sjá hann standa sig svona vel."
Hinrik er núna með U21 landsliðinu en heldur svo aftur til Noregs. Hvernig sérðu þetta skref út hjá honum?
„Ég held að hann og hans fólk sé að líta mjög skynsamlega á þetta. Þetta er gott skref að taka, lið í næst efstu deild en engu að síður efstu deildar klúbbur. Ég held að liðið hafi bara einu sinni áður fallið úr efstu deild og fóru þá beint upp aftur. Þetta er efstu deildar klúbbur í Noregi, þannig skrefið er ekkert of stórt. Spennandi skref fyrir hann að taka á þessum tímapunkti."
„Auðvitað hefðum við Skagamenn viljað njóta hans krafta lengur, en ég held að þetta sé gott skref fyrir hann að taka, og vona það svo sannarlega," sagði þjálfarinn.
Athugasemdir