Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   þri 19. nóvember 2024 12:28
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Enginn kannast við meint samkomulag Arnars og KSÍ
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Gunnlaugsson, formaður knattspyrnudeildar Víkings.
Heimir Gunnlaugsson, formaður knattspyrnudeildar Víkings.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ.
Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í gær sagði íþróttafréttamaðurinn Rikki G frá því í Þungavigtinni að hann hefði heimildir fyrir því að Arnar Gunnlaugsson verði næsti landsliðsþjálfari Íslands.

Hávær orðrómur er um að Age Hareide verði ekki áfram þjálfari landsliðsins og að KSÍ muni nýta sér uppsagnarákvæði í samningi hans seinna í þessum mánuði. Ef það verður raunin þá stýrir Hareide sínum síðasta leik sem þjálfari landsliðsins í kvöld, þegar liðið mætir Wales. Sigri Ísland í Cardiff fer liðið í umspil um sæti í A-deild Þjóðadeildarinnar. Leikurinn hefst klukkan 19:45 og verður í beinni textalýsingu hér á Fótbolti.net.

Hvað var sagt Þungavigtinni?
„Ég hef heimildir fyrir því að það sé búið að ganga frá þessu munnlega við Arnar Gunnlaugsson um að hann verði næsti landsliðsþjálfari Íslands. Ég heyrði líka að KSÍ væri búið að tala við Víkinga og sambandið þarf að borga Víkingum fyrir Arnar," sagði Rikki G.

„Sambandið þyrfti að borga 15-20 milljónir fyrir Arnar sem er samningsbundinn," sagði Kristján Óli.

Ekkert samtal átt sér stað
Fótbolti.net rædd við Heimi Gunnlaugsson, formann knattspyrnudeildar Víkings, í dag. Hann var búinn að fá símtal frá formanni KSÍ, en þó ekki til að óska eftir leyfi til að ræða við Arnar.

„Þorvaldur Örlygsson hafði samband við mig og sagði að ekkert samtal hafði átt sér stað við Arnar og yrði ekki gert nema með samráði við klúbbinn. Síðan heyrði ég í Arnari Gunnlaugs sem sagði það nákvæmlega sama. Eftir því sem ég best veit þá hefur ekkert samtal átt stað og þeir segja báðir að þeir myndu láta mig vita ef það myndi gerast."

Arnar er Víkingum verðmætur, hefur náð frábærum árangri sem þjálfari liðsins.

„Ef staðan kæmi upp þá þyrfti að fara í einhverjar viðræður um það. Það er bara eins og ef samningsbundinn þjálfari skiptir um félag, þá þarf að ræða þau mál. En við erum ekkert að fókusa á það, fókusum á næsta leik sem er í Jerevan," segir Heimir.

Tímabili Víkinga er ekki lokið því eftir rúma viku á liðið útileik gegn FC Noah í Sambandsdeildinni. Í kjölfarið á liðið svo heimaleik gegn Djurgården og útileik gegn LASK. Líkur eru á því að Víkingar spili einnig í Sambandsdeildinni eftir áramót.
Athugasemdir
banner
banner
banner