Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 20. janúar 2022 18:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Skipa Dembele að fara, og það strax
Ousmane Dembele.
Ousmane Dembele.
Mynd: EPA
Ousmane Dembele mun ekki spila fleiri leiki fyrir Barcelona. Félagið stefnir á að selja hann í þessum mánuði.

Dembele verður samningslaus næsta sumar og hefur hann hingað til ekki viljað skrifa undir nýjan samning. Hann vill fá hærri laun en Barcelona - sem hefur átt í miklum fjárhagsvandræðum - getur boðið honum.

Hinn 24 ára gamli Dembele hafnaði samningstilboði frá Barcelona á dögunum og hefur ekkert gengið að semja við hann.

Hann er ekki í hóp gegn Athletic Bilbao í bikarleik í kvöld og verður hann líklega ekki framar í hóp hjá Barcelona.

„Við höfum látið hann og umboðsmenn hans vita að hann verði að fara frá félaginu strax. Við viljum bara hafa leikmenn sem eru tilbúnir að skuldbinda sig þessu verkefni. Við búumst við félagaskiptum fyrir 31. janúar," segir Mateu Alemany, yfirmaður knattspyrnumála hjá Barcelona.

Ef Barcelona selur hann áður en félagaskiptaglugginn - sem er í gangi núna - lokar, þá mun félagið fá einhverja upphæð fyrir hann. Ef hann fer næsta sumar, þá fer hann frítt.

Dembele hefur svarað fyrir þetta. Hann segist enn vera með samning og segist tilbúinn að spila. Það hljómar ekki eins og hann ætli sér að fara í þessum mánuði.

Dembele gekk í raðir Barcelona frá Borussia Dortmund árið 2017 fyrir 135 milljónir evra. Hann hefur ekki staðið undir væntingum og verið mikið meiddur.
Athugasemdir
banner