Orri Steinn Óskarsson er aftur kominn í byrjunarlið FC Kaupmannahafnar eftir að hafa verið úti í kuldanum eftir vetrarfrí.
Orri var á bekknum gegn Manchester City í Meistaradeildinni í fyrsta leik liðsins eftir vetrarfrí og var síðan ekki í hóp í fjórum leikjum í röð. Hann hefur nú byrjað síðustu þrjá leiki, m.a. seinni leikinn gegn Man City.
Ísak Bergmann Jóhannesson er í eigu FCK en er á láni hjá Dusseldorf. Þeir eru báðir í landsliðshópnum sem mætir Ísrael á morgun. Ísak var til viðtals hjá Fótbolta.net á dögunum en hann var spurður út í stöðuna á Orra hjá FCK.
„Þetta er það sem hann á skilið. Hann er búinn að byrja síðustu þrjá og er búinn að leggja upp eitt, þeir eru búnir að vinna báða leikina í deildinni," sagði Ísak.
„Sá reyndar að Cornelius skoraði, léttir fyrir hann en Orri er framtíðar sóknarmaðurinn í liðinu, það er bara geggjað að sjá hann aftur í liðinu."