Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   þri 21. janúar 2025 13:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Valdi Horsens fram yfir Víking - „Heillar mest að komast í aðalliðsbolta"
Galdur á að baki 14 leiki með yngri landsliðum Íslands.
Galdur á að baki 14 leiki með yngri landsliðum Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spilaði fimm deildarleiki og tvo bikarleiki með Blikum áður en hann fór til FCK sumarið 2022.
Spilaði fimm deildarleiki og tvo bikarleiki með Blikum áður en hann fór til FCK sumarið 2022.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Galdur skipti fyrir í Breiðablik frá ÍBV árið 2019.
Galdur skipti fyrir í Breiðablik frá ÍBV árið 2019.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Galdur skrifaði undir þriggja ára samning hjá Horsens.
Galdur skrifaði undir þriggja ára samning hjá Horsens.
Mynd: Horsens
Galdur Guðmundsson var fyrr í þessum mánuði keyptur til Horsens frá FC Kaupmannahöfn. Galdur hafði er uppalinn hjá ÍBV og Breiðabliki og fór sumarið 2022 frá Blikum til FCK. Samningur hans við FCK hefði runnið út næsta sumar og var besta lausnin að róa á önnur mið á þessum tímapunkti.

Galdur er unglingalandsliðsmaður sem verður 19 ára í apríl. Hann ræddi við Fótbolta.net um skipti sín til Horsens.

„Ég er bara glaður og spenntur að vera orðinn leikmaður Horsens. Aðdragandinn var þannig séð ekkert langur, kom heim í jólafrí frá FCK og Horsens kom upp daginn fyrir gamlárs. Ég skrifaði svo undir 10. jan þannig þetta tók sirka tíu daga," segir Galdur.

„Það sem heillar mig mest við Horsens er að komast í aðalliðsbolta og í lið sem á heima í Superligunni. Stefnan hjá klúbbnum er að fara aftur þangað og mér finnst það spennandi."

Talaðirðu við einhverja leikmenn áður en þú tókst þessa ákvörðun?

„Ég talaði aðallega við félaga mína í FCK um Horsens varðandi liðið og borgina og mér leist bara vel á það."

Á að vera partur af aðalliðinu
Hvernig var söluræða Horsens?

„Söluræða Horsens var á þá leið að ég myndi vera partur af aðalliðinu, þeir væru búnir að fylgjast með mér lengi, væru spenntir fyrir mér og vildu fá mig núna sem fyrst í janúar svo ég gæti byrjað strax með þeim. Vonandi sjá þeir mig sem leikmann með hlutverk í liðinu, mér líður allavega þannig eftir æfingaferðina með þeim."

Stökkpallur ef Galdur spilar vel
Horsens er í efri hlutanum í næst efstu deild Danmerkur. Hvað er markmiðið hjá Galdri með Horsens?

„Mitt markmið með Horsens er að komast í byrjunarliðið, spila vel, skora mörk og leggja upp til að hjálpa liðinu að komast upp í Superliguna og gera svo það sama í Superligunni. Mögulega fara svo stærri félög á eftir mér eftir að ég stend mig hjá Horsens."

Mikilvægast að hann bætti sig sem leikmaður
Hvernig gerir Galdur upp tíma sinn hjá FCK?

„Að yfirgefa FCK á þessum tíma fannst mér rétt skref, mér leið eins og það væri ekki pláss fyrir mig í aðalliðinu í framtíðinni. Ég er stoltur og glaður með minn tíma hjá FCK, skemmtileg upplifun, mikið upp og niður en mikilvægast í þessu er að ég bætti mig sem leikmaður og ég er spenntur að sýna það núna í nýju liði, í aðalliði."

„Ég hefði auðvitað viljað komast upp í aðallið FCK og fá framlengingu á samningi en það gekk bara ekki upp og þvi leita ég á annan veg sem ég er ánægður með."


Orðaður við Víking og KR
Í desember var Galdur orðaður við heimkomu, var þá orðaður við Víking og KR. Hann fundaði einnig með Val.

„Ég tók nokkra fundi á Íslandi, t.d. með Óskari og KR, Arnari og Víkingi og svo hitti ég Arnór Smára varðandi skipti í Val. Það er bara gaman að vita af miklum áhuga frá öllum stóru klúbbunum á Íslandi. Mér leist best á Víking á einum tímapunkti en svo kom Horsens upp og mér fannst það vera mest spennandi skrefið fyrir mig."

Þekkir vel að búa úti á landi
Hvernig er lífið í Danmörku og verða viðbrigði að flytja frá Köben til Horsens?

„Mér líður hrikalega vel í Danmörku, búinn að koma mér vel inn í kúltúrinn og svo hjálpar mikið að geta talað dönsku, það tók tíma en það kom með æfingunni."

„Það er mikill munur á borginni Kaupmannahöfn og svo Horsens sem er tíu sinnum minni í fólksfjölda, en ég er bara spenntur fyrir nýjum breytingum. Sjálfur hef ég ekkert á móti því að búa úti á landi þar sem ég bjó í Vestmannaeyjum sem peyi í tíu ár þannig ég á eftir að aðlagast vel ef ég þekki mig sjálfan rétt,"
segir Galdur sem er mættur til Jótlands og verður á hóteli í Horsens fram yfir mánaðamót en þá fær hann íbúð í bænum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner