Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   fös 23. september 2022 11:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Veðurfræðingur svarar: Ekkert sem bendir til þess að tíðin verði mjög rysjótt né róstursöm
Theódór Hervarsson
Theódór Hervarsson
Mynd: Úr einkasafni
Haustmynd frá Akureyri 2017 (alltaf gott veður þar)
Haustmynd frá Akureyri 2017 (alltaf gott veður þar)
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Jafnvel vísbendingar um að loftþrýstingur verði yfir meðallagi fyrri hluta mánaðarins og úrkoman undir meðallagi
Jafnvel vísbendingar um að loftþrýstingur verði yfir meðallagi fyrri hluta mánaðarins og úrkoman undir meðallagi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir landsleikjahlé hefst 'Ofsalegur október' þar sem fimm umferða úrslitakeppni í Bestu deild karla fer fram. Deildinni hefur verið tvískipt og mætast efstu sex liðin innbyrðis og svo neðstu sex.

Sjá einnig:
Svona er leikjaniðurröðun Bestu deildarinnar eftir tvískiptingu

Bikarúrslitaleikur karla fer fram 1. október og svo hefst 1. umferð úrslitakeppninnar þann 2. október. Lokaumferðin fer svo fram 29. október.

Skagamaðurinn Theodór Freyr Hervarsson er veðurfræðingur og fyrrum leikmaður ÍA og Breiðabliks. Fótbolti.net hafði samband við Theodór og spurði hann út í langtímaspána fyrir októbermánuð.

Hvernig lítur langtímaspáin fyrir október út? Verður hægt að spila alla þessa leiki í Bestu deildinni utandyra?
„Langtímaspáin fyrir október er svo sem ágæt eins og stendur. Ekkert sem bendir til þess að tíðin verði mjög rysjótt né róstursöm í október og jafnvel vísbendingar um að loftþrýstingur verði yfir meðallagi fyrri hluta mánaðarins og úrkoman undir meðallagi, sem veit á gott. Í síðari hluta mánaðarins hallast svo allt að meðaltali, eins og gerist mjög oft með þessar langtímaspár."

„Langtímaspár segja okkur hins vegar lítið um veðrið á leikdögum, þetta eru líkindaspár sem gefa niðurstöðu frá viku til viku allt að sex vikur fram í tímann. Til að sjá hvernig veður verður á leikdag reiðum við okkur á skammtímaspár sem ná allt að 10 daga fram í tímann. Óvissa í skammtímaspám eykst svo oft töluvert fyrir daga 5-10, háð því hvernig aðstæður eru í lofthjúpnum. Því er erfitt að segja til um hvort mögulegt verði að spila alla þessa leiki utandyra því 10 daga glugginn er rétt farinn að ná fyrsta leikdegi úrslitakeppninnar. Og ekkert vesen að sjá varðandi fyrsta leikdag."


Kom þér á óvart að ákveðið hafi verið að spila fimm umferðir í október?
„Svarið er bæði já og nei. Já af því að við getum ekki gengið að neinu vísu þegar kemur að veðri í október og við vonda veðurtíð getur framkvæmd leikja utandyra orðið flókin. Erum á vissan hátt aðeins að leika okkur að eldinum má segja. Nei af því að það hefur verið lengi í umræðunni að lengja mótið og fjölga leikjum. Það verður varla gert án þess að lengja mótið í annan eða báða enda. Ætla ekki að viðra einhverja skoðun á því hvort þeir sem ráða hafi getað stillt þessu öðruvísi upp, því það er án efa svo margt sem spilar inn í þá ákvarðanatöku, en treysti því að ýmsar sviðsmyndir hafi verið ræddar. Er líka nokkuð viss um að fylgst verði grannt með veðri í tengslum við þessa leikdaga og menn séu með viðbragðsáætlanir klárar ef allt fer í skrúfuna veðurlega séð."

Ein létt að lokum: Gæti veðrið hjálpað gulum og svörtum að halda sér uppi?
„Nei, það er karakter og vilji sem kemur liðum í gegnum svona erfiðleika, ekki veðrið. Svo búum við á Flórída-Skaganum, þekkist varla að veðrið sé einhver faktor á okkar heimavelli," segir Theodór á léttu nótunum.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner