Heimild: Fréttatíminn
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari kvennaliðs Jiangsu Suning og fyrrum þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, er í löngu viðtali í Fréttatímanum í dag. Þar segir Sigurður Ragnar að fordómar ríki á Íslandi gagnvart kínverskri knattspyrnu. Jiangsu Suning er efnað félag og Sigurður Ragnar reyndi að fá íslenskar landsliðskonur til félagsins á dögunum en án árangurs.
„Mér finnst fordómar ríkja á Íslandi gagnvart kínverskri knattspyrnu. Þeir skína í gegn í viðtölum til dæmis við Frey Alexandersson landsliðsþjálfara, þar sem hann talar niður styrkleika kínversku deildarinnar og segir hana ekkert sérstaka. Allar kínversku A-landsliðskonurnar spila í deildinni og landsliðið hér er 7 sætum ofar en Ísland á heimslistanum," sagði Siggi Raggi í viðtalinu í Fréttatímanum.
„Einn besti og launahæsti leikmaður í heimi, brasilíska landsliðskonan Christiane, mun spila með einu liði í deildinni í ár. Fleiri sterkar erlendar landsliðskonur spila í deildinni. Mér finnst fólk almennt dæma kínverska knattspyrnu af einsleitum fréttaflutningi. Eins og fólk líti þannig á að kínverskir peningar séu verri en enskir peningar eða peningar frá öðrum löndum."
Norskur leikmaður fórnaði landsliðssæti
Kínverska deildin er í gangi á meðan á EM kvenna fer fram í Hollandi í sumar. Sigurður Ragnar samdi á dögunum við norsku landsliðskonuna Isabell Herlovsen og hún mun leika með Jiangsu Suning á tímabilinu. Á sama tíma greindu norskir fjölmiðlar frá því að Isabell væri að fórna sæti sínu í norska landsliðinu með því að fara til Kína.
„Það er búið að vera mikið af gylliboðum frá Kína núna. Enginn landsliðsmaður frá Evrópu hefur farið nema ein norsk stelpa og hún spilar ekki meira með landsliðinu. Þetta eru stórar ákvarðanir sem þær þurfa að taka. Þetta er ábyrgð leikmannanna. Ef þær vilja fara til Kína þá hefur það eðlilega áhrif á þeirra stöðu gagnvart landsliðinu. Sérstaklega þegar það er stórmót," sagði Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari í viðtali við Fótbolta.net á dögunum þegar hann ræddi kínversku deildina.
„Mega konur ekki þéna vel á sinni knattspyrnuiðkun, eins og karlar?"
Sigurður Ragnar gagnrýnir Frey fyrir að að tala niður til kínversku deildarinnar. Sigurður Ragnar vill meina að leikmenn geti leikið í deildinni í Kína og tekið þátt á EM í sumar.
„Mér finnst það orka tvímælis að landsliðsþjálfarinn tali niður deildina með því að segja að hún sé ekki fyrir íslenskar knattspyrnukonur og ekki fyrir leikmenn sem ætli sér að spila í lokakeppni Evrópumótsins sem er framundan. Leikmenn sem við vorum í viðræðum við, vissu að þær mættu taka þátt í öllum landsliðsverkefnum fyrir Evrópumótið, þó þær réðu sig til Kína."
„Mér finnst Freyr vera á hálum ís með því að segja að ef leikmenn spili í Kína, þá hafi það áhrif á val hans í landsliðið. Ég spyr á móti hvert vandamálið sé við að spila í kínversku deildinni? Meirihluti landsliðskvenna spilar í áhugamannadeild á Íslandi þar sem keppnistímabilið er styttra, liðin eru ekki með jafn góða erlenda leikmenn og leikmenn geta ekki einbeitt sér að því eingöngu að spila knattspyrnu. Er vandamálið hvað Kína er langt í burtu? Ég ræddi það við Frey og landsliðskonur sem ég hafði áhuga á að fá hingað, að þær myndu ekki missa af undirbúningi né leikjum á EM. Hvers vegna vill hann þá ekki að þær spili í Kína? Eru það fordómar gagnvart kínverskri knattspyrnu? Mega konur ekki þéna vel á sinni knattspyrnuiðkun, eins og karlar?"
„Ég minnist þess að hafa lesið umfjöllun fyrir stuttu um að íslensk landsliðskona hefði ekki einu sinni efni á mat. Það voru þrír íslenskir leikmenn valdið í karlalandsliðið á meðan þeir spiluðu í Kína, þeir Eiður Smári Guðjohnsen, Viðar Örn Kjartansson og Sölvi Geir Ottesen. Þetta hefur þótt nógu gott fyrir karlalandsliðið, hvers vegna er þetta ekki nógu gott fyrir kvennalandsliðið? Mér finnst þetta réttlætismál fyrir íslenskar landsliðskonur.“
Smelltu hér til að lesa viðtalið við Sigurð Ragnar í heild í Fréttatímanum
Athugasemdir