Í dag var hópur kvennalandsliðsins fyrir Algarve-æfingamótið opinberaður. Mótið er mikilvægur liður í undirbúningi fyrir Evrópumótið sem verður í Hollandi í sumar.
„Ég er mjög ánægður með standið á þessum hópi, það er búið að bæta líkamlegt atgervi eins og hraða og kraft. Ég er mjög ánægður með það," segir Freyr Alexandersson þjálfari.
Dagný Brynjarsdóttir hefur verið að glíma við meiðsli í baki en er í hópnum og Freyr segir að útlitið varðandi hana sé gott. Margrét Lára Viðarsdóttir er að jafna sig eftir aðgerð og er einnig í hópnum.
„Dagný er í góðu ferli og ætti að geta tekið þátt í öllum leikjum. Margrét var í aðgerð í desember en miðað við það er hún í fínu standi. Hún getur kannski ekki tekið þátt í öllum leikjunum en ég vona að hún verði mjög nálægt sínum toppi í júlí."
Ísland hefur leik á Algarve mótinu þann 1. mars gegn Noregi. Ísland mætir einnig Japan og Spáni í riðlakeppninni.
Freyr segir að það sé hörð en holl samkeppni um að vera í lokahópnum fyrir EM sem opinberaður verður í júní.
Harpa Þorsteinsdóttir varð markahæsti leikmaður undankeppninnar þrátt fyrir að missa af síðustu leikjunum. Hún er ólétt og styttist í að hún muni eiga. Óvíst er með þátttöku hennar á EM í sumar.
„Hún hefur hugsað gríðarlega vel um sig og gæti ekki verið í betra standi miðað við að vera gengin níu mánuði á leið. Ég dáist að dugnaðnum í henni en er samt sem áður ekkert að pressa á hana. Hún klárar sín mál og svo sjáum við hvað gerist," segir Freyr.
Ef Harpa snýr aftur út á völlinn og spilar vel þá verður hún í hópnum á EM að sögn Freys.
„Það er samt svo mikið af spurningum sem við eigum eftir að fá svar við. Hún skoraði eða lagði upp 15 af 34 mörkum okkar í undankeppninni og auðvitað er þetta stórt skarð. Þetta hefur haft mikil áhrif en við erum á góðri leið með að leysa þetta. Við gerum þetta með henni eða án hennar á EM. Þetta verður allt klárt."
Á Algarve mótinu munu Katrín Ásbjörnsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir fá tækifæri til að leysa stöðu Hörpu í fremstu víglínu og auk þess mun Freyr halda áfram að gera tilraunir með 3-5-2 leikkerfið.
„Ég vil fá eins mikið af svörum og hægt er (á Algarve mótinu) svo við þurfum ekki að vera með spurningamerki þegar við förum í verkefnin í apríl og júní," segir Freyr Alexandersson.
Viðtalið má sjá í heild í sjónvarpinu hér að ofan en þar ræðir hann meðal annars um þau tilboð sem hafa komist frá kínverskum félögum í landsliðsmenn í Evrópu.
Athugasemdir