Knattspyrnudeild Víkings hefur boðað til fréttamannafundar klukkan 12:15 á morgun en þá verður nýr leikmaður kynntur. Það er að öllum líkindum Oliver Ekroth sem verður kynntur fyrir fjölmiðlum en hann hefur verið í viðræðum við félagið síðustu daga.
Víkingur hefur verið í leit að reynslumiklum miðverði síðustu vikur en liðið missti bæði Kára Árnason og Sölva Geir Ottesen eftir síðasta tímabil.
Félagið fékk Kyle McLagan frá Fram og er nú búið að fylla hitt skarðið en sænski varnarmaðurinn Ekroth kemur til félagsins frá Degerfors.
Ekroth, sem er 30 ára gamall, hafnaði tilboðum frá Bandaríkjunum, Noregi og Rúmeníu, til að gera eins árs samning við Víking.
Varnarmaðurinn reyndi kemur með mikla reynslu en hann á fjölda leikja í B- og C-deildinni í Svíþjóð og þá spilaði hann 26 leiki í sænsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.
Athugasemdir