Santos, Baleba, Wharton, Anderson, Gallagher og Stiller á lista Man Utd - Rashford vill ganga alfarið í raðir Barcelona
   fös 24. október 2025 20:04
Kári Snorrason
Ballymena Showground
Einkunnir Íslands - Langþráður sigur
Eimskip
Karólína Lea var maður leiksins.
Karólína Lea var maður leiksins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá Ballymena Showground.
Frá Ballymena Showground.
Mynd: Kári Snorrason
Fyrirliðinn braut ísinn.
Fyrirliðinn braut ísinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Ísland vann langþráðan 2-0 sigur á Norður-Írlandi fyrr í kvöld. Liðið hafði verið án sigurs í síðustu níu keppnisleikjum fyrir leik kvöldsins. Ísland fer því með tveggja marka forystu inn í seinni leikinn sem fer fram næstkomandi þriðjudag á Laugardalsvelli.

Hér fyrir neðan má sjá einkunnagjöf Fótbolta.net úr leiknum.


Cecilía Rán Rúnarsdóttir (m) - 7

Kom varla við boltann í fyrri hálfleik, fékk þó að vera aðeins með í þeim síðari en þurfti þó aldrei að reyna á sig.

Sandra María Jessen - 6

Fékk góðar stöður sem hefði mátt nýta betur. Ísland á ekki að þurfa að treysta á föst leikatriði þegar gæðamunurinn á milli liðanna er eins mikill og var í kvöld.

Glódís Perla Viggósdóttir (f) - 8

Fyrirliðinn braut ísinn og var örugg í öllum sínum aðgerðum í dag. Gríðarlega mikilvæg í uppspilinu sem og varnarlega, sem þó reyndi lítið á í dag.

Ingibjörg Sigurðardóttir - 7

Skoraði seinna mark liðsins með góðum skalla. Hafði átt í nokkrum erfiðleikum í uppspili liðsins þó þar áður, of margar sendingar sem hittu ekki á samherja.

Alexandra Jóhannsdóttir - 6

Örugg og traust á miðjunni en fékk óþarfa gult spjald.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir - 8

Karólína átti tvær frábærar stoðsendingar í mörkunum tveimur sem komu bæði úr föstum leikatriðum. 

Hlín Eiríksdóttir - 6 

Brenndi af góðu færi í fyrri hálfleik þar sem varnarmaður bjargaði á línu. Hún hafði svo hægt um sig í síðari hálfleik.

Hildur Antonsdóttir - 6 

Byrjaði framar en vanalega, kom sér í ágætar stöður en vantaði upp á herslumuninn.

Guðrún Arnardóttir - 6

Átti í álíka brasi og Ingibjörg fyrri hluta leiks, erfiðleikar með sendingar á samherja. Þó engin stórvægileg mistök.

Sædís Rún Heiðarsdóttir - 7

Sædís flott í vinstri bakverðinum. Kom með góðar fyrirgjafir, þá sérstaklega í fyrri hálfleiknum.

Sveindís Jane Jónsdóttir - 8

Óheppin að komast ekki á blað, átti bæði skot í stöng og í slá í fyrri hálfleik. Ágætis hraði sem hún býr yfir og nýtti hann vel í dag. Fór þó aðeins minna fyrir henni í seinni hálfleik. 

Varamenn:

Diljá Ýr Zomers - 6 

Katla Tryggvadóttir - 6

 Amanda Jacobsen Andradóttir - 6

Aðrar spiluðu ekki nóg til að fá einkunn.


Athugasemdir