Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   mán 25. janúar 2021 10:50
Magnús Már Einarsson
Elísabet tekur ekki við landsliðinu - „Ég er drullusvekkt með þetta"
Icelandair
Elísabet Gunnarsdóttir.
Elísabet Gunnarsdóttir.
Mynd: Fotball Gala
Mynd: Twitter
Mynd: Kristianstad
Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari Kristianstad, verður ekki næsti þjálfari íslenska kvennalandsliðsins. Elísabet hefur átt í viðræðum við KSÍ undanfarnar vikur með það fyrir augum að stýra Kristianstad og landsliðinu á þessu ári áður en hún myndi hætta hjá sænska félaginu.

Ísland spilar á EM í Englandi á næsta ári en undankeppni HM hefst í haust. Elísabet, sem var valin þjálfari ársins á Íslandi árið 2020, ræddi við KSÍ um að taka við landsliðinu og stýra Kristianstad áfram út árið en fyrir helgi breyttust forsendurnar.

„Þau höfðu samband við mig í byrjun janúar og ég fór á tvo fundi með þeim. Ég hef líka átt einhver mini samtöl þess á milli. Við höfum rætt það í tvær vikur að ég þjálfi Kristianstad áfram í ár og landsliðið og að ég myndi síðan hætta hérna úti og fara alfarið í landsliðsverkefnið. Ég ætla að vera alveg hreinskilin, ég hélt að við værum að finna lausn á þessu. Þetta er kóróna ár og það eru færri verkefni á venjulegu ári. Ég var mjög skýr, ég hef ótrúlega mikinn áhuga á þessu starfi og vildi finna lausn á þessu," sagði Elísabet við Fótbolta.net í dag.

„Þau höfðu samband í janúar og þá var ég búin að skrifa undir samning hér. Ég túlkaði þetta eins og það væri vilji til að finna lausn á þessu. Á fimmtudaginn voru þau komin í hring með það að það gengi ekki að gera þetta saman í ár og ég yrði að hætta hérna innan þriggja mánaða. Að koma með það sem skilmála 20. janúar er of seint. Ég er ekki þannig, hvorki sem manneskja né þjálfari, að labba frá liðinu þegar ég er búin að standa fyrir framan liðið og ræða markmið og strategíu fyrir árið. Ég get bara ekki gert það. Þar af leiðandi var það nei af beggja hálfu."

Var farin að skipuleggja fyrstu landsleikina í huganum
Elísabet hafði mikinn áhuga á að taka við landsliðinu og var farin að sjá starfið fyrir sér. „Ég var farin að skipuleggja þetta allt saman í huganum. Ég var komin í fyrstu landsleikina," sagði Elísabet.

„Ég er drullusvekkt með þetta. Svona er þetta. Ég ber virðingu fyrir því að þau vilji ekki vera með þjálfara í tvöföldu starfi. Ég hlýt að hafa mistúklað þetta brjálæðislega því mér fannst okkar viðræður vera þannig að við værum að finna lausn á þessu. Ég held að sá vilji hafi ekki endilega verið til staðar. Maður verður að bera virðingu fyrir því og vona að þeir ráði góaðn mann í starfið. Þetta er rosalega spennandi lið að þjálfa."

Opin fyrir landsliðinu síðar
Elísabet segir að það heilli að taka við landsliðinu síðar þó að það verði ekki að þessu sinni. „Að sjálfsögðu. Maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég er svolítið long term manneskja. Ég var í Val í endalaus ár og ég hef verið hér í tólf ár. Ég var farin að sjá fyrir mér í huganum að vera með landsliðið næstu tíu árin. Maður veit aldrei hvar maður endar og hvað er laust næst."

Kristianstad er á leiðinni í Meistaradeildinni í fyrsta skipti næsta haust og Elísabet horfir spennt á það verkefni. „Ég er í frábæru starfi og elska starfið mitt hérna. Ég var svekkt í nokkra daga og yfir helgina. Ég er búin að jafna mig núna. Núna ætla ég að einbeita mér að þessu og halda áfram að njóta," sagði Elísabet.

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, hefur einnig átt í viðræðum við KSÍ og hann þykir nú líklegastur til að taka við liðinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner