Frenkie de Jong, leikmaður Barcelona á Spáni, hefur engan áhuga á að yfirgefa félagið í þessum glugga en það er Cadena SER sem greinir frá.
Miðjumaðurinn öflugi hefur síðustu vikur verið orðaður við enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United.
Félögin hafa rætt sín á milli en Barcelona hefur hafnað fyrstu tveimur tilboðum félagsins. Seinna tilboðið hljóðaði upp á 56 milljónir punda en Barcelona vill fá 73 milljónir punda.
De Jong hefur verið skýr varðandi framtíð sína. Hann segist eiga heima í Barcelona og það sé draumafélagið hans, en spænski miðillinn AS sagði frá því á dögunum að leikmaðurinn væri nú búinn að sætta sig við það væri komið að kveðjustund. De Jong væri þá búinn að hreinsa út úr klefanum á æfingasvæði Börsunga og tilbúinn að ganga í raðir United.
Barcelona og United eru mjög nálægt því að ná munnlegu samkomulagi um kaupverð en ákvörðunin er í höndum leikmannsins.
Viðræðurnar hafa tekið sinn tíma og útskýrir nú Cadena SER að De Jong hafi hreinlega engan áhuga á að yfirgefa Barcelona. Leikmaðurinn neitar að fara.
Þetta yrði mikið áfall fyrir United sem hefur ekki enn fest kaup á leikmanni í glugganum. Erik ten Hag, stjóri félagsins, er með óskalista og er De Jong með efstu mönnum á þeim lista ásamt Christian Eriksen.
Athugasemdir