Það komu nokkrir Íslendingar við sögu í leikjum dagsins víðsvegar um Evrópu, þar sem Ísak Bergmann Jóhannesson lék allan leikinn í mögnuðu sex marka jafntefli í Þýskalandi.
Ísak Bergmann var í byrjunarliði Fortuna Düsseldorf sem lenti þremur mörkum undir á heimavelli gegn Nürnberg, en lokatölur urðu 3-3.
Düsseldorf er fimm stigum á eftir toppliði FC Köln þegar þrjár umferðir eru eftir af deildartímabilinu í næstefstu deild þýska boltans, en Köln á einn leik til góða.
Ísak og félagar eru í harðri baráttu um að komast upp í efstu deild eftir að hafa komist grátlega nálægt því í fyrra. Valgeir Lunddal Friðriksson sat á bekknunm hjá Düsseldorf.
Guðmundur Þórarinsson lék þá allan leikinn í 3-0 sigri FC Noah í armenska boltanum. Noah er með þrettán stiga forystu á toppi efstu deildar.
Að lokum var Davíð Kristján Ólafsson ónotaður varamaður í sigri Cracovia gegn Motor Lublin í efstu deild í Póllandi. Cracovia siglir lygnan sjó í sjötta sæti þar.
Dusseldorf 3 - 3 Nurnberg
Noah 3 - 0 Ararat Yerevan
Motor Lublin 0 - 1 Cracovia
Athugasemdir