Spilaði Call of Duty til að hita upp fyrir úrslitaleikinn
Emiliano Martínez, landsliðsmarkvörður Argentínu, segist ætla að leggja landsliðshanskana á hilluna ef Argentína vinnur HM á næsta ári.
Argentína vann langþráðan heimsmeistaratitil á síðasta heimsmeistaramóti og getur orðið þriðja þjóðin til að sigra tvö heimsmeistaramót í röð, eftir að Brasilía gerði það síðast fyrir rúmlega 60 árum.
Martínez er 32 ára og er af mörgum talinn vera einn af allra bestu markvörðum heims. Hann hefur unnið til ótal einstaklingsverðlauna auk þess að vera heimsmeistari með Argentínu og er hann lykilmaður í sterku liði Aston Villa.
„Ef við vinnum tvö HM í röð þá er það komið gott, ég legg landsliðshanskana á hilluna. Við verðum að gefa ungum leikmönnum tækifæri til að sanna sig," sagði Martínez í viðtali við BPlay.
„Það væri ótrúlegt að sigra þetta mót tvisvar í röð, það er nánast ekki hægt. Við sáum öll viðbrögð fólks þegar Argentína vann HM, þetta var eitthvað sem ég hef aldrei séð á minni lífstíð. Ef við vinnum aftur þá verður það frábært og sögulegt en gleðin verður ekki jafn óstjórnanleg og þegar við unnum í fyrra skiptið. Fólk þekkir tilfinninguna núna."
En hvað gerði Martínez í undirbúningi sínum fyrir úrslitaleikinn á HM 2022, gegn Kylian Mbappé og félögum frá Frakklandi.
„Ég spilaði Call of Duty með vinum mínum fyrir úrslitaleikinn. Ég borðaði morgunmat og spilaði tölvuleikinn allt þar til við þurftum að mæta á völlinn."
Athugasemdir