banner
   fös 28. júlí 2017 12:10
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Fólki er ekki sama
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Íslendingar voru í miklum meirihluta á leikjunum.
Íslendingar voru í miklum meirihluta á leikjunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frammistaðan og árangurinn alls ekki eftir væntingum.
Frammistaðan og árangurinn alls ekki eftir væntingum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á fluginu heim á leið frá Hollandi fór ég að velta því fyrir mér hvað væri í raun það jákvæðasta sem við Íslendingar getum tekið út úr þessu Evrópumóti.

Niðurstaðan í mínum huga er klárlega áhuginn.

Ég starfaði einnig sem fjölmiðlamaður á síðasta Evrópumóti kvenna sem fram fór í Svíþjóð fyrir fjórum árum. Umgjörðin í kringum mótið hefur tekið framförum síðan þá en alls ekki eins mörg skref og umgjörðin og áhuginn í kringum íslenska liðið.

Ísland á bestu stuðningsmenn Evrópumótsins í Hollandi. Án vafa. Fyrir fjórum árum voru það að mestu vinir og fjölskyldumeðlimir leikmanna sem voru í stúkunni. Á öllum leikjum Íslands í þessu móti voru stuðningsmannasvæðin (Fan-Zone) í borgunum sirka 98% bara með Íslendingum.

Hvergi er fjallað betur um mótið en á Íslandi. Það er auðvelt að kasta þeirri fullyrðingu fram eftir að hafa starfað kringum leikina þarna úti.

Kvennalandsliðið er skipað frábærum fyrirmyndum sem hafa vakið verðskuldaða athygli.

„Athygli fylgir jákvæð og neikvæð umfjöllun. Gott að fólk sé farið að pæla og spyrja spurninga um kvk landsliðið. Engum sama lengur;" skrifaði félagi minn Jón Stefán Jónsson sem hefur starfað lengi í kringum kvennaboltann á Íslandi.

Mikil umræða var um mótið á samskiptamiðlum, góður lestur var á fréttum frá mótinu eftir að flautað var til leiks og Íslendingar fjölmenntu til Hollands.

Því miður náði frammistaða og árangur landsliðsins ekki að fylgja með. Sóknarleikurinn var bitlaus, varnarleikurinn langt undir væntingum, lykilmenn brugðust og liðinu gekk illa að tengja saman sendingar. Niðurstaðan 0 stig. Hreinlega vond frammistaða og vonbrigði innan vallar þegar heildarpakkinn er skoðaður. Sleppum öllum „Ef og hefði" leikjum.

Fjölmiðlar voru ekki að reyna að sykurhúða hlutina enda hjálpar það engum að grafa höfuðið ofan í sandinn og halda að þetta hafi einungis verið skrambans ólukka og orsök meiðsla fyrir mót.

Margar umfjallanir hafa stuðað fólk þó í raun hafi bara verið að segja sannleikann. Ýmsir eru reiðir og hafa látið í sér heyra. Það fylgir þessu.

Jákvæðasti hluturinn er sá að fólki er ekki sama. Kvennalandsliðið skiptir þjóðina miklu máli. Umfjöllunin og umræðan er komin upp um þúsund þrep.

Eftir vonbrigðin innan vallar er naflaskoðun nauðsynleg. KSÍ þarf að nota sinn mannafla til að reyna að finna skýringar og hvað er nauðsynlegt að gera til að bæta hlutina. Skýringarnar á slöku gengi á mótinu eru klárlega margþættar og margar hverjar flóknar. Þarf að kafa alveg ofan í þjálfun yngstu flokka? Það þarf hæfara fólk en mig til að svara þessari spurningu.

Þó þátttöku Íslands á mótinu sé lokið er líklega mikilvægasta vinnan eftir og boltinn er hjá KSÍ.
Athugasemdir
banner
banner
banner