Mikel Arteta, stjóri Arsenal, segist vonsvikinn með 1-0 tapið gegn Paris Saint-Germain í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld, en þó ánægður með frammistöðuna.
Frakkarnir skoruðu sigurmarkið á 4. mínútu leiksins er Ousmane Dembele skaut góðu skoti í fjærhornið eftir stoðsendingu Khvicha Kvaratskhelia.
Arsenal átti mörg góð augnablik í leiknum en PSG sýndi það oft og mörgum sinnum hversu gott liðið er og í raun allt annað lið en það sem tapaði gegn Arsenal með þremur mörkum gegn engu fyrr á tímabilinu.
„Ég er vonsvikinn með úrslitin. Við lögðum svo mikið í þennan leik. Þetta var smá basl fyrstu 10-15 mínúturnar til að ná betri tökum á leiknum, þannig það eru mikil vonbrigði að hafa ekki alla vega náð að gera jafntefli,“ sagði Arteta.
Hann mátti til með að hrósa PSG fyrir þeirra framlag í þessum leik.
„Það er alltaf hættan og verð ég að hrósa þeim fyrir. Þeir komast úr stöðu (þar sem Arsenal pressaði hátt). Við vorum með sjö leikmenn bak við boltann, en þeir voru bara skilvirkir og stundum þarf maður að viðurkenna hæfileika andstæðingsins.“
Ganamaðurinn Thomas Partey var ekki með. Hann tók út leikbann, en Arteta segir að Declan Rice og Mikel Merino hafi gert vel í fjarveru hans.
„Mér fannst Declan og Mikel vera frábærir í þessum leik. Hann gefur okkur samt aðra möguleika og öðruvísi ógn. Það gefur okkur sveigjanleika til að breyta leiknum.“
„Það er hálfleikur og við eigum enn góðan möguleika á að komast í úrslit,“ sagði Arteta.
Athugasemdir