Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   þri 29. október 2024 23:55
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Þurfti staðfestingu frá kærustunni að hann væri orðinn Íslandsmeistari - „Ég á bara heima í Breiðabliki"
Byrjaði 23 leiki í sumar og tapaði einungis einum.
Byrjaði 23 leiki í sumar og tapaði einungis einum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Var einn allra besti vinstri bakvörður deildarinnar í sumar.
Var einn allra besti vinstri bakvörður deildarinnar í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Uppalinn hjá Breiðabliki og þar á hann heima.
Uppalinn hjá Breiðabliki og þar á hann heima.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kiddi sá myndbönd af fögnuði Blika.
Kiddi sá myndbönd af fögnuði Blika.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hugsaði frá fyrsta samtali við Dóra að Breiðablik gæti orðið Íslandsmeistari.
Hugsaði frá fyrsta samtali við Dóra að Breiðablik gæti orðið Íslandsmeistari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Breiðabliki 2010.
Í leik með Breiðabliki 2010.
Mynd: Fótbolti.net - Þórdís Inga Þórarinsdóttir
Íslandsmeistari með KR 2019.
Íslandsmeistari með KR 2019.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristinn Jónsson, leikmaður Breiðabliks, varð á sunnudag Íslandsmeistari í þriðja sinn. Hann upplifði þó ekki sömu tilfinningu í þetta skiptið því hann var á sjúkrahúsi eftir að hafa fengið heilahristing og kinnbeinsbrotnað í úrslitaleiknum gegn Víkingi.

Kiddi, eins og hann er oftast kallaður, komst ekki að því að hann væri orðinn Íslandsmeistari fyrr en löngu eftir að leiknum lauk. Hann ræddi við Fótbolta.net í dag.

Íslandsmeistari í marga klukkutíma án þess að vita það
„Þetta er skrítin tilfinning, maður hefur upplifað áður að verða Íslandsmeistari og ég er ekki með þá tilfinningu í dag, ég missti eiginlega af þessu öllu," segir Kiddi.

„Dóri sendi mér leikinn í gær og ég horfði á hann í morgun. Í minningunni fannst mér Særún sjúkraþjálfari að kíkja bara á mig í hálfa mínútu en í rauninni voru þetta um fimm mínútur þar sem verið var að stússast í mér. Ég var alveg skýr og allt þannig, bæði við hana og uppi á spítala líka þegar verið var að spyrja mig út í þetta."

„Ég fylgist ekkert með leiknum og var ekki með síma á mér. Ég veit því ekki að við höfum unnið leikinn fyrr en um klukkan tvö um nóttina. Læknirinn sem var nýkominn á vakt segir: „Hann er allavega Íslandsmeistari". Þannig komst ég að þessu. Síðan spurði ég kærustuna út í þetta um klukkutíma seinna þegar ég var byrjaður að ranka almennilega við mér, spurði hana hvernig leikurinn hefði farið."


Hvernig var að heyra þetta svona, samtal annarra um að þú værir orðinn Íslandsmeistari?

„Ég hugsaði um leikinn þegar ég kom fyrst á spítalann en eftir að hafa fengið góða verkjastillingu þá var ég ekkert mikið að pæla í þessu. Þegar kærastan kom fyrst hélt hún að ég vissi hvernig leikurinn hefði farið, þannig hún var ekkert að minnast á þetta."

Ekki viss um að Íslandsmeistaratilfinningin komi
Heldurðu að það muni síast inn og alvöru upplifunin að verða Íslandsmeistari kom til þín?

„Ég er búin að vera skoða vídeó í allan morgun og horfði á allan leikinn. Ég er ekkert svo viss um að tilfinningin sem maður hefur upplifað áður komi."

Kiddi fékk heilahristing en telur að hann hafi ekki misst meðvitund.

„Ég er með innkýlt kinnbein, brotið, undir auganu, man alveg vel eftir augnablikinu og er búinn að sjá það líka. Hálfóheppilegt að Erlingur (Agnarsson) er að bakka og ég tímaset hoppið hjá mér ekki nægilega vel og lendi með kinnbeinið aftan á hnakkanum á honum. Mér finnst ég muna eftir öllu, en það má vel vera að ég sé að fylla upp í eyðurnar eftir að hafa horft á upptökuna."

Gat ekki boðið kærustunni upp á sjúkrarúmið
Bakvörðurinn fer í frekari skoðun á fimmtudag þar sem kemur í ljós hvort að kinnbeinið muni ná að gróa eðlilega án aðstoðar.

„Ég er kominn heim. Þegar ég rankaði við mér klukkan 3-4 um nóttina, sá kærustuna í einhverjum keng reyna leggjast við hliðina á mér, þá tók ég bara ákvörðun að ég gæti ekki verið að bjóða henni upp á þetta. Þá var ég búinn að fá leyfi til að fara heim. Ég var sjálfur byrjaður að ranka aðeins betur við mér og betra að fara heim í sitt rúm."

Fannst Blikar langbestir
Hvernig horfirðu á tímabilið 2024 samanborið við 2019 með KR og 2010 með Breiðabliki?

„Það er erfitt að hugsa til baka og bera saman, hóparnir ólíkir og liðin. En mér finnst bragurinn á þessu Breiðabliksliði ekki vera ósvipaður og bragurinn á 2019 með KR. Upplifunin var sú að mér fannst við vera langbestir, fannst vera fáir leikir í sumar þar sem mér fannst við ekki vera betri og áttum skilið að fá þrjú stig. Það voru ekki margir leikir sem við vorum að harka út á síðustu mínútunum, þótt við höfum kannski unnið einhverja á lokamínútunum, þá fannst mér við alltaf sterkari í þeim leikjunum."

„Þetta er bara minn klúbbur"
Ákvörðunin að fara í Breiðablik, hvernig horfirðu til baka ár aftur í tímann?

„Klárlega. Mér finnst ég hafa náð að njóta ársins í heild sinni, frá fyrstu æfingu. Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt og gaman að koma aftur í Breiðablik, hitt aftur stráka og fólk sem ég hef þekkt frá því ég var 6-7 ára gamall. Þetta er bara minn klúbbur, ef það má orða það þannig, ég á bara heima í Breiðabliki."

Hann segir að hugsunin hafi verið sú að Breiðablik gæti orðið meistari 2024. „Ég hugsaði frá fyrsta samtali við Dóra. Þegar ég horfði á leikmannahópinn þá hugsaði ég að liðið yrði líklegt til afreka 2024. Þetta er rosalega sterkur og breiður hópur og rosaleg reynsla í hópnum. Það er alveg klárt mál að væntingarnar voru háar og ég gerði mér vonir um að við gætum orðið í toppbaráttunni allan tímann og orðið Íslandsmeistarar."

Vendipunktur á tímabilinu
Blikar voru nánast óstöðvandi síðustu fjóra mánuði tímabilsins.

„Seinni hálfleikurinn á móti Stjörnunni, þá fannst mér við detta í gír, fórum maður á mann og fórum í þetta af öllum krafti. Mér finnst það kannski vendipunktur á tímabilinu. Slæmi kaflinn um mitt sumar, ég var meiddur á þeim kafla og missti af honum. Eini tapleikurinn sem ég tók þátt í sem byrjunarliðsmaður var á móti Val heima, þar vorum við hreinlega klaufar að tapa," segir Kiddi.

Alveg dofinn vinstra megin í andlitinu
Hann ræddi einnig um stutt undirbúningstímabil í viðtalinu og verður sá hluti birtur á morgun. Lokaspurningin í þessum hluta var út í heilsuna, finnur hann mikið til?

„Ég er á svo sterkum verkalyfjum að ég er bara í toppmálum eins og er. Ég er alveg dofinn alveg vinstra megin í andlitinu og er bara á fljótandi fæði," segir Íslandsmeistarinn.

Kiddi er 34 ára og ætlar að taka slaginn áfram með Breiðabliki á næsta tímabili.
Athugasemdir
banner
banner
banner