Fótboltasumarið í Vestmannaeyjum var sorglegt þar sem bæði karla- og kvennalið félagsins féllu úr deild þeirra bestu.
Eyjamaðurinn Heimir Hallgrímsson, sem stýrði íslenska landsliðinu með frábærum árangri um árabil, var í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolta.net á dögunum þar sem hann fór aðeins yfir stöðuna í Vestmannaeyjum.
„Þegar ég kem, þá reyni ég að hjálpa. Það eru tveir hópar í Vestmannaeyjum: Þeir sem vilja drulla yfir það þegar gengur illa - það er uppselt í þann hóp - og ég fer í hópinn að reyna að hjálpa og aðstoða. Ég held ég hafi verið í tvær eða þrjár vikur í Eyjum í sumar," sagði Heimir sem stýrir í dag landsliði Jamaíku.
Það er áhyggjuefni hvernig þróunin hefur verið í fótboltanum í Eyjum undanfarin ár.
„Við erum með handboltann og þau hafa verið að gera mjög vel. Hrós til þeirra. Við höfum séð Ísafjörð núna, hvað þeir taka bæjarfélagið með sér að fá lið í efstu deild. Svona lítil bæjarfélög þurfa kannski ekki margar íþróttagreinar til að rífa upp stemninguna. Handboltinn hefur tekið þetta núna fyrir Vestmannaeyinga. Handboltavertíðin er löng. Við sem höfum hugsað um fótboltann höfum sofið á verðinum," segir Heimir.
„Það að eiga ekki aðstöðu til að spila fótbolta átta mánuði á ári dregur úr því sem við getum gert. Við erum ekki með heilan völl í átta mánuði á ári og getum ekki spilað íþróttagreinina í átta mánuði á ári. Eðlilega verður erfiðara að ná árangri og erfiðara að búa til leikmenn. Ég held að það komi ekki til greina að stækka höllina. Þeir sem stjórna þessu hafa sofið á verðinum. Á meðan ekkert gerist, þá dregst fótboltinn aftur úr. Ef það er það sem þetta fólk vill, þá er það að heppnast."
Gunnar Heiðar Þorvaldsson, fyrrum sóknarmaður ÍBV og landsliðsins, talaði um það í hlaðvarpinu Chess After Dark á dögunum að það þyrfti að leggja meiri fjármuni í barna- og unlingastarf félagsins og styrkja innviðina. Heimir segir að það þurfi samstöðu í Eyjum.
„Ef við viljum vera í efstu deild, þá þurfum við að leggja metnað í það sem er verið að gera. Ekki bara í meistaraflokkum, heldur líka í yngri flokkum. Það þarf samstöðu í það. Í svona bæjarfélagi þar sem eru ekki margir iðkendur, þá verður þú að gera vel. Umhverfið hefur breyst svo mikið í íslenskum fótbolta á síðustu árum, hvað varðar fjármagn og stærð félaga. Við viljum vera í sömu deild og Breiðablik sem er með 100 stráka og stelpur í hverjum árangri. HK, Fjölnir, Stjarnan... þetta eru risafélög hvað varðar iðkendur," segir Heimir.
„Svo erum við að tala um peninga. Í Vestmannaeyjum hafa þeir útgerðarmenn sem hafa verið að styrkja okkur hvað mest, þeir hafa smám saman hætt og allar þessar útgerðir hafa gengið inn í stóru félögin. Fjármagnið er mun minna. Svo er það þannig að ef að einhver er góður á Suðurnesjum, þá fara þeir í Keflavík því þeir eru alltaf einhvern veginn í efstu deildinni. Á Akureyri er það KA sem ryksugar góða leikmenn upp af Norðurlandi, Selfoss á Suðurlandi. Við erum bara 4500 manna eyja sem getur ekki ryksugað neitt nema sjóinn í kringum okkur... Það þarf fólk með hugsjón og vilja til að breyta þessu."
Athugasemdir