Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 17. mars 2011 12:30
Magnús Már Einarsson
Jens Martin Knudsen: Var ekki alltaf með húfu á Íslandi
Jens Martin með góða húfu í landsleik með Færeyingum.
Jens Martin með góða húfu í landsleik með Færeyingum.
Mynd: Getty Images
Jens Martin og félagar í færeyska landsliðinu á æfingu árið 2002.
Jens Martin og félagar í færeyska landsliðinu á æfingu árið 2002.
Mynd: Getty Images
Lið Leifturs árið 1999.
Lið Leifturs árið 1999.
Mynd: Leiftur
Færeyski markvörðurinn Jens Martin Knudsen stóð á milli stanganna hjá Leiftri frá 1998-2000. Í tímavélinni í dag er “Leiftursævintýrið” rifjað upp en Ólafsfirðingar léku í efstu deild samfleytt frá 1995-2000 þrátt fyrir að vera með einungis 1100 íbúa.

,, Þegar ég lít til baka þá var þetta ótrúlega góður tími. Þetta er kannski minn besti tími í íþróttunum. Við urðum öll að standa saman til að ná einhverjum úrslitum og allir urðu að gefa allt sitt,” sagði Jens Martin þegar Fótbolti.net heyrði í honum.

Jens Martin fór meðal annars með Leiftri í bikarúrslit árið 1998 en liðið tapaði þar 2-0 gegn ÍBV.

,,Við vorum lítið félag og þetta var mjög sérstakt. Við vorum gott lið og áttum fína möguleika á að vinna. Við fengum rautt spjald á okkur og markvörðurinn þeirra bjargaði líka á ótrúlegan hátt frá Una (Arge).”

Árið 2000 var Jens Martin spilandi þjálfari hjá Leiftri þegar liðið sló Luzerne frá Sviss úr leik í UEFA bikarnum með 4-4 jafntefli á útivelli. Enginn hjá Leiftri bjóst við að liðið myndi ná að komast áfram úr fyrstu umferðinni en liðið mætti Sedan frá Frakklandi í annarri umferð.

,,Það voru ekki peningar í kassanum til að fara til Frakklands viku síðar,” sagði Jens Martin hlæjandi þegar hann rifjar þetta upp.

,,Það var mjög erfitt að fá pening fyrir ferðinni. Það reiknaði enginn með að fara áfram í Evrópukeppninni og þetta kostaði sjö milljónir. Það var enginn búinn að panta flug og þetta var erfitt því að peningurinn fyrir þáttöku í Evrópukeppni kom ekki fyrr en ári síðar.”

Þrátt fyrir að slá Luzerne út þá gekk illa í deildinni þar sem að neðsta sætið varð niðurstaðan. Jens Martin, sem var 33 ára á þessum tíma, segir að þetta hafi verið erfitt verkefni fyrir sig.

,, Ég var ekki með mikla reynslu sem þjálfari og það var ómögulegt fyrir mig að bjarga liðinu miðað við þessa reynslu sem ég var með.”

Í dag er Jens Martin aðstoðarlandsliðsþjálfari hjá Færeyingum en hann segist hafa lært mikið á tíma sínum sem þjálfari Leifturs.

,,Þetta var mjög mikil reynsla fyrir ungan þjálfara og þetta var mikilvægur tími fyrir mig.”

Á ferli sínum vakti Jens Martin oft athygli fyrir að spila með húfu í markinu, sérstaklega í leikjum með færeyska landsliðinu.

,,Ég var ekki alltaf með húfu á Íslandi en það var oft kalt fyrir norðan og þá var ég með húfu. Ég er þekktur fyrir að vera með húfu. Ég er venjulegur fjölskyldumaður og mér fannst gott að setja húfuna á hausinn og fara með hana inn á völlinn,” sagði Jens Martin léttur í bragði að lokum.
banner
banner
banner
banner