Strax í byrjun sumars var orðið ljóst að það stefnir í erfiða tíma hjá AC Milan. Fjölmargir leikmenn hættu hjá félaginu og nokkrir jafnvel eftir margra ára dygga þjónustu. Liðið lenti í öðru sæti í deildinni í fyrra á eftir öflugu liði Juventus og augljóst var að félagið þarfnaðist nokkurra nýrra öflugra leikmanna ef það ætti að geta keppt um deildina og meistaradeildina í ár. Á meðan Juventus hefur bætt við sig nokkrum frábærum leikmönnum hefur Milan hins vegar misst tvo bestu leikmenn liðsins, þá Zlatan Ibrahimovic og Thiago Silva.
Silvio Berlusconi eigandi liðsins og forsætisráðherra Ítalíu til margra ára viðurkenndi fúslega að ástæðan fyrir sölunni væri fjárhagsleg og rekstur liðsins væri í takt við fjárhagsvandann á Ítalíu. Í staðinn lofaði hann að byggja upp nýtt lið með yngri leikmönnum og hefur hann að vissu leyti staðið við það.
Í vörninni hefur hann keypt Francesco Acerbi, ungan miðvörð sem stóð sig frábærlega hjá Chievo á síðustu leiktíð ásamt Christian Zapata frá Villarreal. Villarreal féll úr spænsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en Zapata þurfti þar oft á tíðum að leika í stöðu bakvarðar en hann er að upplagi miðvörður. Hvorugur þeirra lék hins vegar í fyrsta leik liðsins í deildinni og ljóst að varnarlínan er eitthvað sem Max Allegri verður að vinna mikið með í vetur. Þeir munu mæta mikilli samkeppni um miðvarðarstöðurnar því fyrir eru hjá AC Milan þeir Philippe Mexes, Daniele Bonera og Mario Yepes.
Á miðjunni hafa þeir bætt við sig silvurmedalíuhafanum frá EM í sumar, Riccardo Montolivo frá Fiorentina ásamt kantmannsins skemmtilega Kevin Constant frá Genoa. Montolivo átti slakt tímabil hjá Fiorentina í fyrra en býr óneitanlega yfir gæðum sem komu í ljós á EM í sumar. Kevin Constant er frábær kantmaður sem fyrst og fremst skortir stöðugleika. Spurningin er þó hvort hann passi inn í lið AC Milan því þeir notast sjaldan við kantmenn heldur sjá sókndjarfir bakverðir oftast um að skapa breidd.
Fram á við fengu þeir til liðs við sig Bojan Krkic frá Roma og Giampaolo Pazzini tók leigubíl frá hinum enda Milanoborgar í skiptum fyrir Antonio Cassano sem um síðir er kominn til félagsins sem hann studdi í æsku. Pazzini, sem er frábær skallamaður mun óneitanlega koma með nýja vídd í sóknarleikinn en gæði framlínunnar eru langt frá því að vera svo öflug að þeir geta náð langt í Meistaradeildinni. Pato meiddist nýlega og verður frá um hríð og Football Manager undrabarnið Mbaye Niang er líklega of ungur til að geta gert gæfumuninn.
Þótt margir leikmenn liðsins séu efnilegir og hafi staðið sig vel hjá öðrum liðum í deildinni reynir mjög á þjálfara liðsins, Max Allegri að búa til sigurlið úr þessum hópi. Líklegast eru spurningamerkin of mörg og reynsluboltarnir of fáir til að liðið hampi titli í lok tímabilsins. En skyldi honum takast það verður sá titill enn sætari fyrir vikið.
Athugasemdir