Þorbjörn Þór Sigurðarson skrifar:
Fótboltasumrinu er að ljúka og þá kemur oft að þeirri spurningu hvað hafi einkennt þetta tímabil fremur en annað? Eftir að hafa fylgst vel með tveimur efstu deildunum (mitt lið leikur í 1. deildinni) finnst mér áberandi að ákveðin kynslóðaskipti séu að eiga sér stað í þjálfun hér á landi.
Nú er ég ekki menntaður í neinum þjálfunarfræðum en sem forfallinn fótboltaáhugamaður hef ég á tilfinningunni að ákveðnar aðferðir séu að verða úreltar. Gamli skólinn virðist nánast hættur að virka. Það er almennt talin léleg stjórnunaraðferð að öskra á menn. Hræðsla við að sækja og byggja upp spil er ekki vænleg leið.
Margir þjálfarar sem hafa verið lengi í fremstu röð á Íslandi hafa átt mjög erfitt uppdráttar í sumar meðan ný nöfn hafa skotist á sjónarsviðið. Ég býst við því að þegar þjálfarakapallinn frægi fari af stað á næstu vikum muni yngjast enn frekar upp í þjálfaraflotanum.
Margumtalað er að þjálfun sé í stöðugri framför á Íslandi. Það sem virkaði vel fyrir einhverjum árum er ekki að bera ávöxt í dag. Alls ekki taka þessum pælingum sem alhæfingu. Það eru ekkert allir ungir þjálfarar frábærir og gömlu refirnir ömurlegir.
Bjarni Jóhannsson er til dæmis að ná flottum árangri. Hann hefur greinilega náð að fylgja eftir breytingum á landslaginu. Það eru auðvitað undantekningar á öllu.
Það er leiðinlegt að halda með liði sem gengur illa. Hvað þá liði sem bæði gengur illa og spilar hundleiðinlegan fótbolta. Þessu fékk ég að kynnast sem Leiknismaður í sumar. Ég get heldur ekki trúað því að Grindvíkingum finnist gaman að sjá sitt lið sparka út í loftið og fá engin stig.
Er ekki málið að fara að horfa út fyrir rammann og fá fleiri ný andlit inn?
Þegar 1. deildin fór af stað voru fjórir þjálfara sem voru að þjálfa í Pepsi-deildinni í fyrra starfandi þar; Páll Viðar Gíslason (Þór), Andri Marteinsson (ÍR), Willum Þór Þórsson (Leiknir) og Ólafur Þórðarson (Víkingur R.). Fótbolti.net birti í vikunni samanburð á lokastöðu 1. deildarinnar og hvernig spáin fyrir mót var.
Fjögur lið lentu í lokin neðar en þeim var spáð. Þrjú af þeim þjálfuð af mönnum sem þjálfuðu í Pepsi-deildinni í fyrra. Hitt var lið Hauka sem Ólafur Jóhannesson, fyrrum landsliðsþjálfari, stýrir.
Fallbaráttuþjálfararnir þrír í Pepsi-deildinni eru Guðjón Þórðarson, Logi Ólafsson og Þorvaldur Örlygsson.
Ég væri til í að sjá stjórnarmenn horfa út fyrir rammann. Það eru margir spennandi kostir sem eiga skilið að fá tækifæri. Það eru margir athyglisverðir þjálfarar í neðri deildum að banka á dyrnar. Endurnýjun er bara af hinu góða.
Þorbjörn Þór Sigurðarson
Lesendur Fótbolta.net geta sent inn pistla og ef þeir standast kröfur ritstjórnar verða þeir birtir. Sendið inn á [email protected]
Athugasemdir