Hið sögufræga lið ÍA er komið aftur í deild þeirra bestu. Spámenn Fótbolta.net telja að Skagamenn falli aftur niður í 1. deild, endi í 11. sæti. Fréttaritarar spá í deildina en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær 12 stig, annað sæti 11 og svo koll af kolli niður í tólfta sæti sem gefur eitt stig. ÍA fékk 21 stig samtals
Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10.?
11 ÍA 21 stig
12. Leiknir 14 stig
Um liðið: ÍA á gríðarlega dygga og trausta stuðningsmenn og er eitt stærsta félag landsins. Liðið féll úr Pepsi-deildinni 2013 þegar liðið hlaut aðeins ellefu stig en nú er stefnan á að festa liðið aftur í sessi í deildinni. ÍA hafnaði í öðru sæti 1. deildarinnar í fyrra og tryggði sér þar með upp um deild undir stjórn Gunnlaugs Jónssonar.
Hvað segir Jörundur? Jörundur Áki Sveinsson er sérstakur álitsgjafi Fótbolta.net um liðin í Pepsi-deildinni 2015. Jörundur lét af störfum sem þjálfari hjá BÍ/Bolungarvík í fyrra en þar áður var hann aðstoðarþjálfari FH. Í dag þjálfar hann meistaraflokk kvenna hjá Fylki.
Styrkleikar: Samheldinn hópur og það er gríðarleg fótboltahefð í bæjarfélaginu. Frábær heimavöllur. Þeir hafa staðið sig vel á undirbúningstímabilinu, vonandi þeirra vegna ná þeir að fylgja því eftir inn í Íslandsmótið.
Veikleikar: Lítil breidd, nokkrir leikmenn sem hafa ekki spilað mikið á stóra sviðinu áður. Mikil pressa frá samfélaginu á Akranesi, heimamenn vilja að liðið sé í fremstu röð, ALLTAF! Spurning hvernig menn höndla það ef liðið lendir í mótlæti.
Lykilmenn: Árni Snær Ólafsson er spennandi markvörður, svolítið öðruvísi en margir markmenn, smávaxinn (miðað við markmenn) með frábærar spyrnur og spilar oft sem aftasti varnarmaður. Ármann Smári Björnsson er leiðtogi liðsins og hans bíður ærið verkefni að leiða liðið áfram. Arnar Már Guðjónsson er spennandi leikmaður sem gaman verður að fylgjast með og svo eru það Garðar Gunnlaugsson og Arsenij Buinicki sem munu leiða sóknarleik liðsins.
Gaman að fylgjast með: Hvort að leikmenn nái að stjórna spennustiginu og höndli pressuna og mögulega mótlæti. Gulli þjálfari verður að ná öllu út úr sínum mönnum, því hópurinn má ekki við miklum skakkaföllum. Byrja mótið á að fá Íslandsmeistarana í heimsókn og fara svo í Gettóið... össsss þetta verður eitthvað!
Stuðningsmaðurinn segir - Brynjólfur Þór Guðmundsson
„Það þarf ekki að koma á óvart að Skagaliðinu sé spáð fallsæti, verandi liðið í öðru sæti 1. deildar í fyrra og við Skagamenn orðnir óþægilega vanir því að falla úr úrvalsdeild síðasta áratuginn. Þetta á kannski sérstaklega við þar sem félagið hefur ekki fengið marga leikmenn til liðs við sig í vetur. Sjálfur geri ég ekki kröfu um meira en 10. sætið en vonast auðvitað eftir betri árangri. Ég tel að Gulli Jóns standi frammi fyrir einhverri stærstu áskorun allra þjálfara ÍA til þessa, að rífa liðið upp eftir versta niðurlægingartímabil í sögu félagsins, sem hefur eiginlega staðið samfellt yfir frá 2008. Það er nokkurra ára verkefni."
„Skagaliðið býr þó að mörgum ágætum leikmönnum og ég held að breiddin sé að aukast. Nýju útlendingarnir ku lofa góðu, við misstum lítið frá síðasta sumri, og svo eru ungir strákar eins og Albert Hafsteinsson og Þórður Þ. Þórðarson sem gætu spriklað með í sumar."
Völlurinn: Akranesvöllur, tekur 3.000 áhorfendur, þar af 1.100 í sæti. Mörgum finnst þó best að koma sér fyrir í brekkunni, sérstaklega þegar sólin skín!
Komnir:
Arsenij Buinickij frá KA
Ásgeir Marteinsson frá Fram
Marko Andelkovic frá Viitorul
Marteinn Örn Halldórsson frá Reyni Sandgerði
Farnir:
Andri Adolphsson í Val
Hjörtur Júlíus Hjartarson í Augnablik
Jón Björgvin Kristjánsson í Gróttu
Wentzel Steinarr Ragnarsson Kamban í Aftureldingu
Leikmenn ÍA sumarið 2015:
1 Páll Gísli Jónsson
3 Sindri Snæfells
4 Arnór Snær Guðmundsson
5 Ármann Smári Björnsson
6 Ingimar Elí Hlynsson
8 Hallur Flosason
9 Garðar Gunnlaugsson
10 Jón Vilhelm Ákason
11 Arnar Már Guðjónsson
12 Árni Snær Ólafsson
13 Arsenij Buinickij
14 Ólafur Valur Valdimarsson
15 Teitur Pétursson
16 Þórður Þ. Þórðarson
18 Albert Hafsteinsson
19 Eggert Kári Karlsson
20 Gylfi Veigar Gylfason
22 Steinar Þorsteinsson
23 Ásgeir Marteinsson
24 Árni Þór Árnason
27 Darren Lough
30 Marteinn Örn Halldórsson
31 Marko Almendovic
Leikir ÍA 2015:
3. maí ÍA – Stjarnan
11. maí Leiknir R. – ÍA
17. maí ÍA – Víkingur R.
20. maí FH – ÍA
26. maí ÍA – Breiðablik
31. maí Fjölnir – ÍA
7. júní ÍA – Fylkir
15. júní KR – ÍA
22. júní ÍA – Keflavík
28. júní Valur – ÍA
12. júlí ÍA – ÍBV
18. júlí Stjarnan – ÍA
26. júlí ÍA – Leiknir
5. ágúst Víkingur R. – ÍA
10. ágúst ÍA – FH
17. ágúst Breiðablik – ÍA
23. ágúst ÍA – Fjölnir
30. ágúst Fylkir – ÍA
13. sept ÍA – KR
20. sept Keflavík – ÍA
26. sept ÍA – Valur
3. okt ÍBV – ÍA
Spámennirnir: Arnar Daði Arnarsson, Alexander Freyr Einarsson, Elvar Geir Magnússon, Gunnar Birgisson, Hafliði Breiðfjörð, Arnar Geir Halldórsson og Jóhann Ingi Hafþórsson.
Athugasemdir