Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 03. maí 2021 23:52
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Hallur breytti um umhverfi í vetur - „Geggjað að fá traustið"
Myndir úr leiknum á laugardag.
Myndir úr leiknum á laugardag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hallur Húni Þorsteinsson var í byrjunarliði Fylkis þegar liðið mætti FH á laugardag í fyrstu umferð Pepsi Max-deildarinnar. Leikurinn endaði með 0-2 útisigri FH. Hallur er átján ára og uppalinn hjá Haukum.

Hann söðlaði um í vetur og gekk í raðir Fylkis. Hann lék í vinstri bakverði og lék allan leikinn. Hallur var með samning á borðinu hjá Haukum í vetur en ákvað að skoða sig um og leitaði annað.

Fréttaritara barst sú ábending að Hallur hafi ekki verið í plönum meistaraflokks Hauka. Hann kom við sögu í einum leik árið 2019 en engum í fyrra. Af hverju hélt hann annað?

„Það er erfitt að spá fyrir um hvort ég hefði fengið séns eða spilatíma með Haukum í sumar. Eftir síðasta tímabil með öðrum flokki Hauka langaði mig að breyta um umhverfi. Það var mikill vinskapur yfir öllum samskiptum milli mín og Hauka, ég fór sjálfur að skoða önnur lið og leist vel á Fylki. Ég hreifst mjög af spilamennsku þeirra síðasta sumar og vissi að 2. flokkurinn væri sterkur," sagði Hallur.

„Fylkir tók mér virkilega vel og mér leist strax vel á klúbbinn og alla umgjörð. "

Hvenær vissiru að þú myndir byrja leikinn gegn FH og hvernig var að byrja þennan leik?

„Ég fékk að vita að ég myndi byrja leikinn á móti FH, daginn fyrir leik. Það var auðvitað fáranlega gaman að vera í byrjunarliði, þó að úrslitin hafi ekki alveg verið eins og við ætluðum okkur."

Ertu sáttur með þína frammistöðu og hvernig var að fá taustið?

„Já, ég held að ég geti alveg verið ágætlega sáttur með mína frammistöðu og það var auðvitað geggjað að fá traustið."

Extra pirrandi að tapa gegn FH?

„Já, það er auðvitað alltaf pirrandi að tapa og sérstaklega á móti minna liðinu í Hafnarfirði," sagði Hallur léttur.

Þeir Daði Ólafsson og Ragnar Bragi Sveinsson tóku út leikbann á laugardag. Daði er sá leikmaður sem lék flesta leiki Fylkis í vinstri bakverðinum í fyrra. Næsti leikur Fylkis er gegn HK á laugardag.
Athugasemdir
banner
banner
banner