Sancho vill ekki snúa aftur til Man Utd - Dumfries vill fara til Man Utd - Chelsea vill Osimhen
banner
   lau 04. mars 2023 11:30
Hafliði Breiðfjörð
Kartöflugarðurinn í Zenica bíður Íslands eftir 20 daga
Icelandair
Völlurinn eins og hann leit út 5. febrúar síðastliðinn.
Völlurinn eins og hann leit út 5. febrúar síðastliðinn.
Mynd: BiHFootball
Mynd frá 16. febrúar.
Mynd frá 16. febrúar.
Mynd: BiHFootball
Sigurður Þórðarson.
Sigurður Þórðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari Íslands.
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland fagnar marki á Laugardalsvelli síðasta sumar.
Ísland fagnar marki á Laugardalsvelli síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

„Völlurinn í Bilino Polje lítur út eins og kartöflugarður. Eftir 32 daga mætir Bosnía/Hersegóvína Íslandi þar," var skrifað á langvinsælustu stuðningsmannasíðu landsliðs Bosníu/Hersegóvínu 19. febrúar síðastliðinn.

Undankeppni EM 2024 hefst 23. mars næstkomandi þegar Ísland sækir Bosníu/Herzegóvínu heim á þennan völl. Enginn vallarstarfsmaður sinnti vellinum síðan í október og ástandið var mjög slæmt.


Leikið verður á Bilino Polje leikvangnum í  Zenica sem er í um klukkustundarakstri frá höfuðborginni Sarajevo. Heimamenn velja að spila í Zenica því þar eru flestir harðkjarnastuðningsmenn liðsins en þó munu aðeins 3500 áhorfendur komast að því UEFA refsar þeim fyrir framkomu í síðasta leik með því að loka 2000 sætum.

Fótbolti.net spurði þann sem sér um stuðningsmannasíðuna út í ástæðu þess að ekkert hafi verið unnið í vellinum en hann hafði kennt pólitík um. 

„Bæjaryfirvöld í Zenica þar sem Bilino Polje völlurinn er voru með samkomulag við fyrirtæki sem átti að sjá um grasið. Það komu upp einhver vandamál og ekkert var hugsað um völlinn í marga mánuði," sagði hann. „Undanfarna viku hafa þeir þó byrjað að vinna í vellinum og þeir lofa að hann verði í lagi fyrir leikinn," bætti hann við.

Það bætti svo ekki úr skák að það kafsnjóaði í Zenica núna um mánaðarmótin og völlurinn var orðinn snævi þakinn. Það er þó allt bráðið núna og enginn snjór í Zenica sem stendur.

Verður ekkert hlustað á athugasemdir
Sigurður Þórðarson á knattspyrnusviði KSÍ fór til Zenica í síðasta mánuði og skoðaði aðstæður. Hann var ekki hrifinn.

„Völlurinn leit ekkert sérstaklega vel út fyrir mánuði síðan," sagði Sigurður við Fótbolta.net en íslenska liðið mætir til Bosníu um sólarhring fyrir leik og getur ekki gert athugasemdir fyrr en komið er á svæðið.

Hann segir knattspyrnusambandið í Bosníu/Hersegóvínu í sömu baráttu og KSÍ hér á landi við yfirvöld að fá nýjan boðlegan völl til að spila á. Munurinn sé þó að völlurinn í Zenica líti út fyrir að vera 50 árum eldri en Laugardalsvöllur.

„Við getum ekki gert neinar athugasemdir fyrr en komið er á svæðið en á þær verður líklega ekki hlustað. Það eru allskonar kröfur um gervigrasvelli en einu kröfurnar á grasvelli eru að þeir séu grænir, með hvítum línum og tveimur mörkum. Engar kröfur eru gerðar um gæði vallarins," segir hann en bætti við.

„Við erum samt vissir um að það verði allt gert til að hafa völlinn í sem bestu standi þegar leikurinn fer fram. Auðvitað vilja leikmenn beggja liða spila á eins góðu grasi og hægt er, völlurinn verður eins fyrir bæði lið."

Hluti af planinu að þetta verði algjört rugl
Þetta verður fyrsti leikur íslenska liðsins í undankeppni EM 2024 en liðið mætir svo Liechtenstein ytra 26. mars.   Arnar Þór Viðarsson þjálfari íslenska liðsins hefur tekið ákvörðun um að liðið æfi ekki fyrir leikinn í Bosníu/Hersegóvínu heldur í Munchen í Þýskalandi.

Ein af ástæðum þess að liðið æfir í Þýskalandi  er staðan á vellinum en þær eru þó fleiri sem vega þyngra, auðveldara þótti að ná liðinu hratt saman í Þýskalandi, enda bara þrjár æfingar fyrir leikinn, og í Þýskalandi er meira næði.

„Við létum UEFA vita að það þyrfti að gera eitthvað í vellinum. Vonandi eru þeir farnir að vinna í vellinum núna þegar snjórinn er farinn en ég og Jói (Jóhannes Karl Guðjónsson aðstoðarþjálfari) erum með hluta af planinu að búa okkur undir að þetta verði algjört rugl," sagði Arnar Þór við Fótbolta.net.

„Þó völlurinn verði alveg ömurlegur þá getum við bara fylgst með úr fjarlægð og getum ekkert gert meira. Það þarf að treysta á að vallarstarfsmenn geri sitt besta."

Gestaliðið á rétt á að æfa í klukkustund á keppnisvellinum daginn fyrir leik, miðvikudaginn 22. mars, en Ísland ætlar ekki að nýta sér það að þessu sinni. Þess í stað verður æft á æfingasvæði Bayern Munchen í Þýskalandi í hádeginu og svo flogið til Sarajevo.

Á meðan liðið fer upp á hótel í Sarajevo eftir lendingu mun Arnar Þór fara með Ómari Smárasyni fjölmiðlafulltrúa klukkutíma leið á völlinn í Zenica þar sem fram fer fréttamannafundur.

„Við Ómar munum taka einhverja með okkur sem geta tekið myndir og video af vellinum til að geta sýnt strákunum hverju má búast við," sagði Arnar.

Víkur Óðinn fyrir Árna?
Nú eru 20 dagar í leikinn og spurning hvort ekki væri viðeigandi að sleppa því að spila lagið „Ég er kominn heim," með Óðni Valdimarssyni fyrir leikinn í þetta sinn og gefa Árna Johnsen orðið.

„Þegar ég var pínulítill patti
var mamma vön að vagga mér í vöggu
í þeim gömlu, kartöflugörðunum heima."


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner