Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   þri 04. maí 2021 10:18
Elvar Geir Magnússon
Hvernig endar Danny Guthrie í Fram?
Danny Guthrie í leik með Walsall.
Danny Guthrie í leik með Walsall.
Mynd: Getty Images
Mynd: Fram
Fram hefur fengið til sín miðjumanninn Danny Guthrie, leikmann sem margir þekkja enda hefur hann spilað yfir 100 leiki í ensku úrvalsdeildinni.

Hann hóf atvinnumannaferil sinn með Liverpool en er sennilega þekktastur fyrir tíma sinn hjá Newcastle og Reading.

Guthrie er orðinn 34 ára en hvernig kemur það til að hann endar í íslensku Lengjudeildinni?

Í febrúar yfirgaf hann enska D-deildarliðið Walsall en hann var á sínu öðru tímabili hjá félaginu.

Darrell Clarke, sem var stjóri Walsall, útskýrði brotthvarf Guthrie í viðtali við Express & Star og sagði að hann hefði verið á samningi um að fá greitt eftir fjölda spilaðra leikja.

Það hefði verið besta lausnin fyrir leikmanninn og félagið að leiðir myndu skilja því hann hefði verið að glíma við meiðsli á tímabilinu og hafi þar að auki verið á eftir Alfie Bates í goggunarröðinni þegar hann var leikfær.

„Danny fékk nýjan samning síðasta sumar því að þegar hann spilaði á síðasta tímabili þá var liðið að ná tveimur stigum að meðaltali á leik. Þegar hann spilaði þá spilaði hann vel en það var alltaf áhætta í ljósi þess að við vissum ekki hversu margar mínútur hann gæti spilað," segir Clarke.

„Allir sem horfa á nafnið gera ráð fyrir því að hann hafi verið launahæsti leikmaður félagsins. Það er algjört kjaftæði. Hann var meðvitaður um að þegar hann skrifaði undir samninginn þá var þetta að mestu borgað eftir því hversu mikið hann spilaði. Þetta var aldrei fjárhagsleg áhætta fyrir félagið eins og sumir halda."

„Við óskum honum alls hins besta og horfum til framtíðar. Hann hefur ekki spilað eins mikið og við vildum og það var rétt skref að leiðir myndu skilja."

Samkvæmt Wikipedia þá hafnaði Guthrie tilboðum frá B- og C-deildinni á Englandi þegar hann var látinn fara frá Blackburn Rovers 2017. Hann vildi spila erlendis og samdi við Mitra Kukar í Indónesíu. Miðað við það þá er ævintýraþrá í leikmanninum og það gæti spilað inn í þá ákvörðun hans að koma til Íslands.

Það kryddar allavega Lengjudeildina mikið að fá svona stórt nafn í deildina og ljóst að ef Guthrie verður í standi og heldur sér frá meiðslunum ætti hann að hjálpa Fram mikið í því að reyna að koma sér upp í efstu deild.
Athugasemdir
banner
banner
banner