Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   fös 04. október 2024 17:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Tíu ár liðin frá því Hollywood handritið var skrifað í Hafnarfirði
Ólafur Karl Finsen var eftirminnilega hetjan í leiknum.
Ólafur Karl Finsen var eftirminnilega hetjan í leiknum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í dag eru akkúrat tíu ár liðin frá einum magnaðasta fótboltaleik sem hefur verið spilaður á Íslandi.

Stjarnan varð þá Íslandsmeistari karla eftir sigur á FH fyrir framan 6500 manns í Kaplakrika. Það var stappað á pöllunum þó veðrið hafi verið vont.

Þetta var leikur sem allir höfðu beðið eftir, hreinn úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn. Bæði lið voru taplaus fyrir leikinn en FH var með pálmann í höndunum þar sem þeir voru tveimur stigum á undan.

Leikurinn stóð undir væntingum og svo miklu meira en það. Ólafur Karl Finsen kom Stjörnunni yfir rétt fyrir hlé (með rangstöðumarki) en í seinni hálfleik dró til tíðinda þegar Veigar Páll Gunnarsson fékk að líta rauða spjaldið. Einum fleiri jöfnuðu FH-ingar og var þar að verki Steven Lennon. En í uppbótartímanum gerðust ótrúlegir hlutir þar sem Stjarnan fékk vítaspyrnu.

Þetta var eins og Hollywood handrit. Auðvitað var það Ólafur Karl, sem hafði átt sumar lífs síns, sem fór á punktinn og skoraði. Hann fagnaði svo með fólkinu sínu í stúkunni. Kassim Doumbia, þáverandi varnarmaður FH, fagnaði ekki. Hann var trylltur og ætlaði að vaða í dómarateymið sem gaf þarna vítaspyrnu.

Ólafur Karl var hetjan þarna en hann fór í eftirminnilegt viðtal stuttu eftir tímabil þar sem hann opnaði sig upp á gátt. Þetta stórkostlega viðtal má lesa með því að smella hérna.

Á morgun mætast Valur og Breiðablik í Bestu deild kvenna sem er svipaður fyrirfram og þessi leikur fyrir tíu árum. Tvö bestu liðin að mætast í leik sem mun skera úr um það hvaða lið verður Íslandsmeistari. Allir á völlinn!


Athugasemdir
banner
banner