Þróttur Vogum
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 2. deild í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla þjálfara liðanna í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.
Spáin:
1. Þróttur V. 116 stig
2. Njarðvík 112 stig
3. Haukar 96 stig
4. Leiknir F. 89 stig
5. Magni 66 stig*
6. ÍR 66 stig
7. KV 52 stig*
8. KF 52 stig
9. Kári 39 stig
10. Reynir S. 36 stig
11. Fjarðabyggð 35 stig
12. Völsungur 33 stig
*KV var hæst spáð 4. sæti en KF var hæst spáð 5. sæti.
*Magna var hæst spáð efsta sæti en ÍR hæst spáð 4. sæti
Lokastaða í fyrra: Þróttur endaði í 3. sæti, tveimur stigum frá sæti upp í næstefstu deild. Þróttur var 3. besta heimavallarliðið og næsbest á útivelli. Liðið skoraði 39 mörk og fékk á sig níjtán.
Þjálfarinn: Hermann Hreiðarsson tók við liðinu í fyrra, snemma móts af Binna Gests, eða fyrir leikinn gegn Völsungi í 5. umferð. Kórdrengir og Þróttur náðu í jafn mörg stig í síðustu sextán umferðunum. Hemmi er fyrrum leikmaður Portsmouth, Charlton, Ipswich og fleiri félaga. Hann hefur þjálfað Fylki og ÍBV hér á landi.
Álit Ástríðunnar:
Hlaðvarpsþátturinn Ástríðan er leiðandi í umfjöllun um 2. deild. Þáttarstjórnendur gefa sitt álit á liðunum fyrir mót.
Ástríðan segir – Þróttur
„Þróttur var í harðri toppbaráttu í fyrra en menn byrjuðu mótið ekki nægilega vel. Eftir komu Hemma Hreiðars tapaði liðið varla leik, endaði í 3.sæti og bætti félagsmet með því sjötta eða sjöunda árið í röð"
Styrkleikar: „Þróttur Vogum hefur náð að mynda ótrúlega stemningu í liðinu og í kringum það þar sem allir róa í sömu átt. Hemmi, leikmenn, Marteinn Ægis formaður og bæjarfélagið veit nákvæmlega fyrir hvað liðið stendur og allir eru tilbúnir að deyja fyrir málstaðinn."
„Leikstíllinn er mikill styrkleiki þó hann sé ekki alltaf fallegur. Þróttarar verjast djúpt og agað, eru mjög fastir fyrir en sækja svo hratt og refsa. Þjálfari liðsins, Hemmi Hreiðars, er gríðarlegur styrkleiki fyrir lið eins og Þrótt. David James mætti á æfingar og leiki í fyrra og svo fær hann til sín Marc Wilson í sumar. Hemmi er legend sem allir þekkja og hans orð vegur mikið."
Veikleikar: „Líkt og með Njarðvík þá er erfitt að finna veikleika en sagan er lítil í Vogunum og ef litið er aðeins til hennar þá er erfitt að gera kröfu á að slíkt lið fari upp um deild. Samt sáum við svipað gerast í fyrra þegar Kórdrengir fóru upp."
„Nokkrir sterkir leikmenn hafa að undanförnu glímt við meiðsli og þeir þurfa að vera klárir sem fyrst því ástríðan spáir því að þau lið sem ætli upp megi varla misstíga sig."
Lykilmenn: Marc Wilson, Andy Pew og Sigurður Gísli „Bond“ Snorrason
Gaman að fylgjast með: Haukur Leifur Eiríksson. Spennandi 2002 model úr FH sem hefur byrjað báða leikina í bikarnum.
Komnir:
Arnar Sigþórsson á láni frá FH
Gylfi Gestsson frá Elliða
Haukur Leifur Eiríksson á láni frá FH
Marc Wilson frá Englandi
Ruben Lozano Ibancos frá Fjarðabyggð
Sölvi Pálsson frá Smára
Unnar Ari Hansson frá Leikni F.
Farnir:
Andri Jónasson í ÍH
Brynjar Jónasson í ÍH
Eysteinn Þorri Björgvinsson í Fjölni
Ethan Patterson
Fyrstu þrír leikir:
7. maí Njarðvík úti
15. maí Fjarðabyggð heima
21. maí ÍR úti
Sjá einnig:
Hin hliðin - Siggi Bond
Athugasemdir