banner
   mið 06. júlí 2022 22:51
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeild kvenna: Tindastóll hafði betur í Grindavík
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Grindavík 0 - 2 Tindastóll
0-1 Bryndís Rut Haraldsdóttir ('74 )
0-2 Murielle Tiernan ('82)


Grindavík og Tindastóll áttust við í eina leik kvöldsins í Lengjudeild kvenna. Liðin mættust í Grindavík og úr varð mikill baráttuleikur þar sem færanýtingin gerði gæfumuninn fyrir gestina af Sauðarkróki.

Staðan var markalaus allt fram að 74. mínútu þegar Bryndís Rut Haraldsdóttir kom boltanum í netið eftir mikinn atgang í kjölfar hornspyrnu. Sauðkrækingar verðskulduðu að taka forystuna.

Grindavík sótti næstu mínúturnar en fékk annað mark í bakið eftir aðra hornspyrnu á 82. mínútu. Í þetta sinn virtist Grindavík hafa hreinsað boltann í burtu en hann barst aftur í vítateiginn og misskilningur milli markmanns og varnarmanns orsakaði það að Murielle Tiernan komst í boltann og skoraði í autt mark.

Lokatölur 0-2 og Tindastóll jafnar FH á toppi Lengjudeildarinnar, en Hafnfirðingar eiga leik til góða. 

Grindavík er áfram í neðri hlutanum, með 8 stig eftir 10 umferðir.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner