sun 09. janúar 2022 21:48
Brynjar Ingi Erluson
Afríkukeppnin: Annar sigur Grænhöfðaeyja frá upphafi
Julio Tavares stangar boltann í netið og tryggir Grænhöfðaeyjum sigurinn
Julio Tavares stangar boltann í netið og tryggir Grænhöfðaeyjum sigurinn
Mynd: Getty Images
Yared Bayeh var rekinn af velli á tólftu mínútu
Yared Bayeh var rekinn af velli á tólftu mínútu
Mynd: Getty Images
Eþíópía 0 - 1 Grænhöfðaeyjar
0-1 Julio Tavares ('45 )
Rautt spjald: Yared Bayeh ('12, Eþíópía )

Landslið Grænhöfðaeyja vann annan sigur sinn í sögu Afríkukeppninnar er liðið vann Eþíópíu 1-0 á Stade Olembe-leikvanginum í Kamerún.

Yared Bayeh, varnarmaður Eþíópíu, var rekinn af velli strax á 12. mínútu leiksins er hann braut á Julio Tavares sem var að sleppa í gegn. Bayeh fékk fyrst gula spjaldið en eftir að dómarinn skoðaði atvikið í VAR uppfærði hann það í rautt spjald.

Teklemariam Shanko var besti maður Eþíópíu og átti nokkrar fínar vörslur en kom þó ekki í veg fyrir laglegan skalla Tavares eftir fyrirgjöf Gerry Rodrigues undir lok fyrri hálfleiks.

Eþíópía náði ekki að skapa sér hættuleg færi í þeim síðari en Shanko var þó áfram í banastuði og varði vel. Annar sigur Grænhöfðaeyja í Afríkukeppninni staðreynd og er liðið með þrjú stig líkt og Kamerún sem vann Búrkína Fasó í dag.

Þetta er í aðeins þriðja sinn sem Grænhöfðaeyjar taka þátt í keppninni en landið var undir Portúgal til 1975 og spilaði þá ekki undir alþjóðaknattspyrnusambandi, FIFA, fyrr en ellefu árum síðar.

Fyrsti sigur þeirra í Afríkukeppninni kom gegn Angóla árið 2013 og hafnaði liðið í 7. sæti en það er besti árangur þjóðarinnar í keppninni til þessa.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner